Um skýrsluna

Landsbankinn gefur nú í níunda sinn út samfélagsskýrslu þar sem viðmiðum GRI er fylgt. Skýrslan er einnig framvinduskýrsla til UN Global Compact. Skýrslan endurspeglar þekkingu bankans á viðfangsefninu á þeim tíma sem hún er rituð. Með útgáfu skýrslunnar er ekki gefið í skyn að bankinn þekki til fulls áhrif sín á samfélagið, né heldur að samfélagsábyrgð hafi verið að fullu innleidd í bankanum. Við gerð skýrslunnar er reynt að veita innsýn í það sem vel er gert, benda á það sem betur mætti fara og fjalla um álitamál.

Upplýsingar í samfélagsskýrslunni eru unnar af starfsfólki bankans á ýmsum sviðum en utanaðkomandi ráðgjafi var fenginn til að yfirfara upplýsingagjöf skýrslunnar með tilliti til þess að hún uppfyllti kröfur GRI Standards.1 Árið 2019 var ráðinn til starfa sérfræðingur í samfélagsábyrgð2 í 50% starfshlutfall sem ritstýrir og hefur yfirumsjón með skýrslugerðinni.

Tilvísunartafla sem fylgir skýrslunni skýrir að hve miklu leyti grein er gerð fyrir hverju viðmiði. Um sum viðmiðanna er fjallað ítarlega í skýrslunni á meðan einungis er gerð grein fyrir öðrum í tilvísunartöflunni. Í þeim tilfellum þar sem ekki er að fullu gerð grein fyrir ákveðnum vísum stafar það af því að upplýsingar vantar eða þær eru ekki samanburðarhæfar. Til að forðast endurtekningar vísar tilvísunartaflan til annarra miðla og skýrslna bankans þar sem við á, vegna upplýsinga um einstök viðmið.

Gæðatrygging upplýsinga

  • Að skilgreina að hvaða leyti viðmiðin eru viðeigandi fyrir Landsbankann
  • Að skilgreina hvaða upplýsingar þarf til að uppfylla viðkomandi viðmið
  • Að tilgreina hverjir eru ábyrgir fyrir upplýsingunum og hvernig þær skulu gerðar samanburðarhæfar milli ára

Rekja má innleiðingu samfélagsábyrgðar í Landsbankanum með því að lesa eldri samfélagsskýrslur bankans. Við efnistök og afmörkun skýrslunnar var litið til eftirfarandi atriða og lögð er áhersla á starfsemi Landsbankans án dótturfélaga, nema annað sé tekið fram.


  • Gerð er grein fyrir sömu viðmiðum og í fyrri skýrslum en vísar voru uppfærðir í samræmi við breytingar frá viðmiðum GRI G4 yfir í GRI Standards árið 2018.
  • Við val á vísum var litið til þess sem sambærileg fjármálafyrirtæki á Norðurlöndum gera, auk sjónarmiða hagsmunaaðila.
  • Hér til hliðar er að finna töflu sem útskýrir hvernig mikilvægum viðfangsefnum (e. material topics) er stýrt innan bankans og hvar ábyrgð á þeim liggur. Þessi tafla var fyrst gerð árið 2018 þegar breytt var úr GRI G4 skýrslugjöf yfir í GRI Standards. Taflan svarar vísinum GRI 103 á þann hátt að hún útskýrir nálgun stjórnenda á mikilvæg viðfangsefni.
  • Til þess að ákveða hvaða viðfangsefni væru mikilvægust fyrir starfsemi bankans var farið yfir vísana með starfsfólki Landsbankans og mikilvægileikastig þeirra greint. Þegar lá fyrir hvaða viðfangsefni GRI Standards væru mikilvægust fyrir starfsemi Landsbankans var skilgreint hvaða svið bæru ábyrgð á stýringu vísanna og hvernig þeim væri stýrt.
  • Tafla GRI 103 er þannig upp sett að mikilvægustu viðfangsefnin, eða GRI vísarnir, eru settir á Y-ás töflunnar. Sviðum bankans er raðað á X-ás töflunnar og um stýringu vísanna má lesa í dálkum töflunnar.
  • Við gerð þessarar skýrslu var farið yfir töfluna og gengið úr skugga um að engar breytingar hefðu átt sér stað frá því árið 2018.

Allar upplýsingar í skýrslunni eiga við um almanaksárið 2019. Landsbankinn hvetur þá sem kynna sér efni skýrslunnar til að senda bankanum ábendingar um hvaðeina sem betur má fara í þeim hluta starfseminnar sem snýr að samfélagsábyrgð, sem og ábendingar um úrbætur á framsetningu skýrslunnar.

Hér að neðan er að finna töflu sem útskýrir hvernig mikilvægum efnistökum er stýrt innan bankans og hvar ábyrgð á þeim liggur.
Tafla GRI 103 (pdf)

1. Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagsábyrgð.

2. Aðalheiður Snæbjarnardóttir, sérfræðingur í samfélagsábyrgð.