Framtíðarsýn í samfélagsábyrgð

Landsbankinn leggur áherslu á að samþætta samfélagsstefnu sína við kjarnastarfsemina.

Samfélagsstefna Landsbankans miðar að því að stuðla að sjálfbærni í íslensku samfélagi, vera hreyfiafl og starfa eftir ábyrgum stjórnarháttum við rekstur bankans.

Við ætlum að eiga frumkvæði að samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og samtök um þróun á atvinnuháttum og innviðum sem stuðla að aukinni sjálfbærni íslensks atvinnulífs og samfélags með það að markmiði að tækifæri Íslands í þessu sambandi verði nýtt með sem bestum hætti fyrir land og þjóð til framtíðar. Saman sköpum við ný viðskiptatækifæri með áherslu á sjálfbærni.

Landsbankinn fylgir þremur heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sérstaklega, sem og viðmiðum UNEP-FI um ábyrga bankastarfsemi. Þeim síðarnefndu er ætlað að tengja bankastarfsemi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Parísarsáttmálann.

Fjallað er um viðmið UNEP-FI og heimsmarkmiðin í tengslum við samfélagsstefnu bankans í kaflanum Ábyrg bankastarfsemi og heimsmarkmið.

Landsbankinn hefur auk þess sett sér mælanleg og tímasett markmið út frá leiðbeiningum UNEP-FI til þess að vinna að heimsmarkmiðunum og Parísarsamkomulaginu og eru þau kynnt í kaflanum Markmið.

Stefnumótun í samfélagsábyrgð

Í eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki segir að fjármálafyrirtæki skuli marka sér stefnu í umhverfismálum, um sjálfbæra þróun og samfélagslega ábyrgð. Í samræmi við eigandastefnuna hefur Landsbankinn m.a. verið virkur þátttakandi í starfi UN Global Compact, aðili að verkefni Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI), stofnaðili að samtökum um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi (IcelandSIF) og Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, og gefur árlega út samfélagsskýrslu í samræmi við viðmið Global Reporting Initiative (GRI), svo eitthvað sé nefnt.

Samfélagsstefna Landsbankans var samþykkt árið 2011 og hefur verið í stöðugri þróun síðan. Lögð er áhersla á að samfélagsábyrgð sé hluti af kjarnastarfsemi bankans. Árið 2019 var skrifað undir Viðmið um ábyrga bankastarfsemi og hluti af þeirri skuldbindingu felur í sér að setja sér markmið til að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulaginu í starfsemi bankans. Við vinnslu þessara markmiða voru notaðar leiðbeiningar frá UNEP-FI og komu framkvæmdastjórn, starfsmenn bankans, ýmsir hagsmunaaðilar, viðskiptavinir og almenningur að mótun markmiðanna. Nánar má lesa um markmiðin og gerð þeirra í kaflanum Markmið.

Stefnumörkun bankans, þar með talið í samfélagsábyrgð, liggur hjá framkvæmdastjórn og bankaráði Landsbankans.

Landsbankinn í 6. sæti af 376 bönkum samkvæmt Sustainalytics

Í október 2019 fékk Landsbankinn UFS-áhættumat frá Sustainalytics en matið snýr að samfélagsábyrgð bankans, nánar tiltekið umhverfis- og félagslegum þáttum og stjórnarháttum. Þetta eru svokallaðir UFS-þættir, environmental, social og governance (ESG) á ensku. Landsbankinn fékk mjög góða einkunn og er bankinn í 6. sæti af 376 bönkum sem Sustainalytics hefur mælt í Evrópu. Landsbankinn fékk 17,5 stig á 100 stiga skala sem þýðir að lítil áhætta er talin vera á að bankinn verði fyrir fjárhagslegum áhrifum vegna UFS-þátta.

Krafan um úttekt ytri aðila á UFS-þáttum fyrirtækja hefur aukist undanfarin ár og vilja ýmsir fjárfestar að það liggi fyrir óháð mat þriðja aðila á samfélagsábyrgð bankans. UFS-þættir eru viðmið sem snúa m.a. að því hvernig fyrirtæki gætir að umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og hvernig fyrirtæki kemur fram við starfsfólk, birgja, viðskiptavini og samfélagið sem það starfar í.

Landsbankinn vinnur að gerð loftslagsmælis

Árið 2019 gerðist Landsbankinn aðili að alþjóðlega verkefninu PCAF sem miðar að því að búa til loftslagsmæli sem er sérsniðinn að fjármálafyrirtækjum. Loftslagsmælinum er ætlað að gera fjármálafyrirtækjum kleift að mæla og greina frá kolefnislosun í lána- og eignasafni þeirra. Verkefnið hófst í Hollandi og hafa PCAF-mælar verið gerðir fyrir fjármálafyrirtæki þar í landi og fyrir banka í Norður-Ameríku. Núna er unnið að því að búa til alþjóðlegan loftslagsmæli til þess að fjármálafyrirtæki um heim allan geti mælt þessa kolefnislosun á vísindalegan og samræmdan hátt. Landsbankinn er í þróunarhópi PCAF fyrir alþjóðlega mælinn en gert er ráð fyrir að sú vinna taki um þrjú ár.

Mikil áhersla á netöryggismál

Landsbankinn leggur mikla áherslu á netöryggismál og á í margvíslegu samstarfi við samtök og stofnanir sem beita sér á þessu sviði, bæði hérlendis og erlendis. Sérfræðingar bankans taka virkan þátt í umræðu um málaflokkinn og bankinn hélt á árinu 2019 áfram að framleiða aðgengilegt fræðsluefni sem birt er á Umræðunni og dreift á samfélagsmiðlum bankans. Bankinn lítur á fræðsluna sem hluta af samfélagsábyrgð sinni.

Á árinu 2019 tóku netöryggissérfræðingar bankans þátt í á þriðja tug viðburða um netöryggi, stóðu fyrir fjölmennum fræslufundi um netöryggismál, auk þess sem þeir héldu fræðslufundi í fyrirtækjum.


  • Fjöldi greina og fræðslumyndbanda um netöryggi hafa birst á Umræðunni

Umræðan: Verum vakandi

Réttindi viðskiptavina og meðferð persónuupplýsinga

Landsbankinn virðir réttindi einstaklinga sem þeim eru falin í lögum um persónuvernd í samræmi við stefnu bankans um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Einstaklingar geta nýtt sér réttindagátt bankans til að óska eftir aðgangi að eigin persónuupplýsingum sem bankinn notar í starfsemi sinni, óska eftir leiðréttingu eða biðja um að tilteknum persónuupplýsingum um þá sé eytt úr kerfum bankans og fleira.

Á árinu 2019 afgreiddi Landsbankinn 44 beiðnir um aðgang að upplýsingum, 21 beiðni um eyðingu, níu beiðnir um leiðréttingu upplýsinga og eina beiðni um flutning þeirra til annars þjónustuveitanda. Persónuverndarfulltrúa bankans bárust engar kvartanir yfir meðferð persónuupplýsinga viðskiptavina eða annarra á árinu.

Ábyrgir stjórnarhættir

Landsbankinn ætlar að vera til fyrirmyndar í stjórnarháttum og fylgir leiðbeinandi reglum Kauphallarinnar, Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins þar um. Sjá nánar í kaflanum Um Landsbankann.

Samstarf um samfélagsábyrgð

Landsbankinn tekur þátt í eftirfarandi samstarfi um samfélagsábyrgð:

Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð. Landsbankinn var einn af stofnaðilum Festu árið 2011.

United Nations Global Compact. Landsbankinn hefur verið þátttakandi í UN Global Compact á heimsvísu frá árinu 2006.

United Nations Principles for Responsible Investment (UN PRI). UN PRI eru samtök fjárfesta, sjóðafyrirtækja og greinenda sem hafa það að markmiði að innleiða umhverfis- og samfélagssjónarmið, auk góðra stjórnarhátta, í ákvarðanatöku við fjárfestingarákvarðanir.

United Nations Environment Programme Finance Initiative (UNEP-FI). Landsbankinn var einn af stofnaðilum UNEP-FI árið 1992.

IcelandSIF, samtök um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi. Landsbankinn var einn af stofnaðilum IcelandSIF árið 2017. Tilgangur samtakanna er að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræður um þær.

Parísarsamkomulagið. Landsbankinn undirritaði í nóvember 2015 yfirlýsingu um markmið í loftslagsmálum ásamt rúmlega 100 íslenskum fyrirtækjum og stofnunum, í samstarfi við Reykjavíkurborg og Festu.

Viðmið um ábyrga bankastarfsemi (UNEP-FI Principles for Responsible Banking). Landsbankinn skuldbatt sig í september 2019 til að innleiða og fylgja Viðmiðum um ábyrga bankastarfsemi. Þeim er ætlað að tengja bankastarfsemi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Landsbankinn leggur áherslu á þrjú heimsmarkmið í sinni starfsemi: nr. 5, um jafnrétti kynjanna, nr. 8, um góða atvinnu og hagvöxt og nr. 12, um ábyrga neyslu og framleiðslu.

PCAF (Partnership for Carbon Accounting Financials). Landsbankinn gerðist aðili að alþjóðlega verkefninu PCAF árið 2019 sem miðar að því að búa til loftslagsmæli sem er sérsniðinn að fjármálafyrirtækjum og er ætlað að gera þeim kleift að mæla og greina frá kolefnislosun í lána- og eignasafni þeirra.

Í kaflanum Samstarf má lesa nánar um samstarf Landsbankans á sviði samfélagsábyrgðar innanlands.