Ábyrg bankastarfsemi og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Alþjóðlegar sjálfbærnileiðbeiningar fyrir banka

Í september 2019 skrifaði Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, undir ný viðmið um ábyrga bankastarfsemi í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Landsbankinn var þar í hópi 130 banka víðsvegar að úr heiminum en viðmiðunum er ætlað að tengja fjármálastarfsemi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamkomulagið.

Viðmiðin voru formlega kynnt við upphaf allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna en þetta er viðamesta samstarfsverkefni alþjóðlega bankakerfisins og Sameinuðu þjóðanna hingað til. Viðmiðin voru þróuð af 30 alþjóðlegum bönkum í samvinnu við UNEP FI (United Nations Environment Programme - Finance Initiative) og byggja á aðgerðaramma um innleiðingu og ábyrgðarskyldu. Með undirskriftinni skuldbinda bankarnir sig til að beita sér þar sem áhrifavald þeirra er mest, þ.e. í gegnum kjarnastarfsemi sína. Bankarnir skuldbinda sig til að vinna markvisst að því að auka jákvæð áhrif og draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar á samfélagið og náttúruna og greina frá því á gagnsæjan hátt. Þetta er í fyrsta sinn sem settar eru fram alþjóðlegar leiðbeiningar um samþættingu sjálfbærniviðmiða á öllum stigum bankastarfsemi.

Viðmiðunum er ætlað að vera alþjóðlegur mælikvarði á ábyrga bankaþjónustu og tryggja að bankar skapi verðmæti fyrir bæði hluthafa sína og samfélagið.

Aðlögun: Aðlaga starfsstefnu banka og leggja sitt af mörkum til að mæta þörfum einstaklinga og markmiðum samfélagsins, eins og þau eru skilgreind í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, Parísarsamkomulaginu og viðeigandi landslögum og -reglum. Mikilvægt að beita kröftum banka þar sem áhrif þeirra eru mest.

Áhrif: Bankar leitist við að auka jákvæð áhrif og draga úr neikvæðum áhrifum og áhættu af starfsemi sinni, vörum og þjónustu á einstaklinga og umhverfið.

Viðskiptavinir: Bankar vinni með viðskiptavinum á ábyrgan hátt að því að stuðla að sjálfbærum viðskiptaháttum og styðja við atvinnustarfsemi sem skapar sameiginlegan ávinning fyrir bæði núverandi og komandi kynslóðir.

Hagsmunaaðilar: Bankar taki frumkvæði að ábyrgu samráði og samstarfi við viðeigandi hagsmunaaðila til að ná markmiðum samfélagsins.

Stjórnarhættir og markmiðasetning: Bankar framkvæmi skuldbindingar sínar samkvæmt viðmiðum þessum undir formerkjum áhrifaríkra stjórnarhátta og innleiðingu menningar um ábyrga bankastarfsemi, með metnað og ábyrgðarskyldu að leiðarljósi. Helstu markmið og áhrif af þessari vinnu skulu vera opinber.

Gagnsæi og ábyrgðaskylda: Bankar skulu reglulega yfirfara árangur sinn í tengslum við einstök viðmið og innleiðingu þeirra í heild og birta upplýsingar um bæði jákvæð og neikvæð áhrif af starfsemi sinni á markmið samfélagsins á ábyrgan og gagnsæjan hátt.

Nánar um sex viðmið um ábyrga bankastarfsemi.


Það sem aðild að viðmiðum um ábyrga bankastarfsemi felur í sér fyrir Landsbankann er að bankinn þarf m.a. að setja sér mælanleg og tímasett markmið út frá leiðbeiningum UNEP-FI til þess að vinna að heimsmarkmiðum SÞ á markvissan hátt í starfsemi sinni. Landsbankinn hafði áður greint hvaða þremur heimsmarkmiðum bankinn ætlar að leggja áherslu á og fjallað er um þau hér á eftir. Vinnan verður endurmetin árlega til þess að auka enn frekar líkur á góðum árangri. Nánar má lesa um markmiðin og hvernig þau voru unnin í kaflanum Markmið.

Þeir bankar sem hafa skrifað undir viðmiðin samþykkja einnig að hjálpast að og deila þeim aðferðum sem virka best sín á milli. Þar sem bankarnir starfa víðsvegar um heiminn og eru misjafnlega langt á veg komnir í samfélagsábyrgðarstarfi er þetta góður vettvangur til að læra af öðrum og tileinka sér það sem vel hefur reynst.

Viðmið um ábyrga bankastarfsemi

1. Aðlaga stefnu að heimsmarkmiðum SÞ og      Parísarsamkomulaginu.

2. Auka jákvæð áhrif á samfélag og umhverfi      og draga úr neikvæðum áhrifum.

3. Vinna með viðskiptavinum að sjálfbærni.

4. Vinna með hagsmunaaðilum að því að ná        markmiðum samfélagsins.

5. Ábyrgir og skilvirkir stjórnarhættir og            markmiðasetning.

6. Gagnsæi í tengslum við jákvæð og                  neikvæð áhrif.

Heimsmarkmiðin hluti af samfélagsstefnu

Landsbankinn ætlar að fylgja heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með markvissum hætti í starfsemi sinni. Lögð verður áhersla á þrjú af markmiðunum: markmið 5 um jafnrétti kynjanna, markmið 8 um góða atvinnu og hagvöxt og markmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu. Markmiðin sem bankinn hefur valið tengjast öll starfsemi bankans og því getur vinna bankans að þeim hámarkað jákvæð áhrif hans á umhverfið.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru kynnt árið 2015 en þau komu í stað þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem sett voru um aldamótin. Heimsmarkmiðin eru fleiri og ítarlegri en þúsaldarmarkmiðin og taka á þeim fjölmörgu áskorunum sem allur heimurinn stendur frammi fyrir. Hér má lesa um hvert heimsmarkmið fyrir sig og undirmarkmið þeirra.


  • Landsbankinn hefur ákveðið að fylgja heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með markvissum hætti í sinni starfsemi.

Heimsmarkmiðin hluti af samfélagsstefnu

Heimsmarkmið 5 - Jafnrétti kynjanna

Landsbankinn hefur um árabil lagt áherslu á að karlar og konur hljóti jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf og hafi sömu starfstækifæri. Landsbankinn hefur í tvígang hlotið gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC og í mars 2019 tók lögbundin jafnlaunavottun Landsbankans gildi.

Ítarlega er fjallað um jafnréttismál í Landsbankanum í jafnréttiskaflanum.


Heimsmarkmið 8 - Góð atvinna og hagvöxtur

Heimsmarkmiði 8 er ætlað að stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla. Landsbankinn gerir það á ýmsan hátt í starfsemi sinni. Sem dæmi má nefna að Landsbankinn hefur gert lánasamning við Norræna fjárfestingarbankann (NIB) sem kveður á um endurlán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og umhverfistengdra verkefna á Íslandi.

Í bankanum hafa atvinnugreinastefnur, sem fela í sér viðmið um samfélagsábyrgð, verið samþykktar fyrir eftirfarandi atvinnugreinar: sjávarútveg, fasteignafélög, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, eignarhaldsfélög, ferðaþjónustu, verslun, þjónustu, upplýsingatækni og fjarskipti. Landsbankinn leggur sitt af mörkum til að bæta aðgengi að banka- og fjármálaþjónustu fyrir alla en bankinn rekur flest útibú landsins og flesta hraðbanka. Náms- og samfélagsstyrkir Landsbankans hjálpa til við að efla staðbundna menningu.


Heimsmarkmið 12 - Ábyrg neysla og framleiðsla

Heimsmarkmið 12 snýst um að tryggja sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur. Landsbankinn stuðlar að ábyrgri neyslu og framleiðslu á ýmsan hátt í starfsemi sinni og hefur víðtæk áhrif út í samfélagið.

Til að stuðla að minni sóun matvæla, minni úrgangi, aukinni endurvinnslu og minni sóun almennt hefur Landsbankinn sýnt hraða þróun í að verða pappírslaus banki, náð að minnka úrgang og sorp í starfsemi sinni og rekur Svansvottað mötuneyti fyrir starfsfólk bankans.

Til að draga úr losun efna og efnablandna út í andrúmsloftið, vatn og jarðveg, hefur Landsbankinn boðið einstaklingum upp á hagstæða fjármögnun á vistvænum bílum auk þess sem bankinn hefur minnkað eldsneytisnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda, notar umhverfisvottuð ræstiefni og hreinlætispappír, býður starfsfólki upp á samgöngustyrki og kolefnisjafnar allar vinnuferðir starfsfólks innanlands sem utan.

Landsbankinn stuðlar að sjálfbæru verklagi í sínum innkaupum og nýtir sér birgja úr nærsamfélaginu en árið 2019 voru 89 % af innkaupum bankans hjá innlendum birgjum.

Í mælikvarðakafla þessarar skýrslu má lesa nánar um umhverfismál í rekstri bankans, þróun pappírsnotkunar, meðhöndlunar sorps, eldsneytisnotkunar, kolefnisjöfnunar og önnur atriði sem tengjast umhverfinu. Samfélagsskýrsla Landsbankans hefur verið gefin út árlega frá því árið 2012 þar sem viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI) er fylgt og þróunina má því rekja með því að skoða eldri skýrslur bankans.

Landsbankinn vinnur að minni kolefnislosun í gegnum heimsmarkmið 12 en með því að stuðla að ábyrgri neyslu og framleiðslu skapast hegðunarmynstur sem leiðir til minni kolefnislosunar en hefðbundin neysla og framleiðsla.