Fjármálafyrirtæki

FS1 Stefnur sem fela í sér rýni umhverfis- og samfélagsþátta

Stefna í sambandi við almenn atvinnugreinaviðmið í lánveitingum frá Fyrirtækjasviði bankans var samþykkt af bankaráði árið 2017, svo voru almenn samfélagsviðmið við lánveitingar til fyrirtækja samþykkt í bankaráði árið 2018. Atvinnugreinastefnur Landsbankans innihalda viðmið um samfélagsáhrif þar sem meðal annars er verið að skoða loftslagsáhættu viðskiptavina. Atvinnugreinastefnur eru til fyrir eftirfarandi atvinnugreinar: sjávarútveg, fasteignafélög, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, eignarhaldsfélög, ferðaþjónustu, verslun, þjónustu, upplýsingatækni og fjarskipti. Landsbankinn styður viðleitni viðskiptavina sinna við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og hafa þannig jákvæð áhrif á umhverfi sitt. Stuðningur bankans er fyrst og fremst fólginn í lánveitingum til fjárfestinga.


FS3 Ferlar til að fylgjast með innleiðingu viðskiptavina á og fylgni við umhverfis og samfélagsleg skilyrði í samningum eða viðskiptum

Viðbótarviðmið við greiningu fjárfestinga

Hagfræðideild Landsbankans aflar á skipulagðan máta upplýsinga um starfsemi skráðra fyrirtækja með hliðsjón af sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Upplýsinganna er aflað með einföldum spurningarlista sem tekur á helstu þáttum samfélagsábyrgðar, umhverfismálum og jafnrétti. Svörin hafa verið aðgengileg fjárfestum síðan í júní 2017 en deildin tekur ekki efnislega afstöðu til svaranna. Markmiðið er að samfélagsábyrgð verði hluti af almennum greiningum og tekið verði tillit til þessara þátta í tengslum við mat á fjárfestingarkostum. Þetta er í samræmi við skuldbindingar bankans um ábyrgar fjárfestingar.

Uppbygging þekkingar á málaflokknum ábyrgar fjárfestingar

Sérfræðingar bankans og Landsbréfa hafa markvisst sótt fræðslu á vegum IcelandSIF (samtök um ábyrgar fjárfestingar). Fulltrúar bankans og Landsbréfa sóttu einnig ársfund PRI. Einnig hefur bankinn tekið þátt í samstarfi við Háskóla Íslands þar sem gerð var ákveðin greiningarvinna á stöðu ábyrgra fjárfestinga hjá bankanum.

Næstu skref

Landsbankinn og Landsbréf skrifuðu undir samning við Reitun um kaup bankans og Landsbréfa á framkvæmd UFS-áhættumats (e. ESG risk rating) á útgefendum hlutabréfa og skuldabréfa í stýringu félaganna.

Landsbankinn og Landsbréf hafa sett sér metnaðarfulla stefnu um ábyrgar fjárfestingar sem eru fjárfestingaraðferðir sem taka mið af umhverfislegum og félagslegum þáttum sem og stjórnarháttum (UFS) við fjárfestingarákvarðanir. Markmiðið er að draga úr áhættu og skila sjálfbærri ávöxtun til langs tíma.

Markmiðið með samningnum er að færa innleiðingu á starfsháttum ábyrgra fjárfestinga á næsta stig og halda þannig áfram þeirri vegferð sem bankinn og dótturfélag hans, Landsbréf, hafa markað sér undanfarin ár.

UFS-áhættumat hefur verið samstarfsverkefni Reitunar, Klappa - grænna lausna og Þrastar Ólafs Sigurjónssonar, dósents hjá HÍ, sem snýst um að byggja upp og þróa UFS-áhættumat fyrir innlendan markað. Mikill vöxtur hefur verið í slíkum áhættumötun erlendis við fjárfestingarákvarðanir og innlendir fjárfestar eru að tileinka sér þær hratt. UFS-áhættumat skoðar hvernig fyrirtæki standa sig í þeim þáttum sem lúta að UFS. Með þeim hætti má sjá styrkleika og veikleika þeirra þátta hjá hverju fyrirtæki ásamt einkunn, sem auðveldar samanburð við aðra. Þjónusta Reitunar varðandi UFS-áhættumat mun byggja á stafrænum lausnum ásamt hefðbundinni greiningarvinnu.

G4-FS8 Vara og þjónusta sem ætlað er að framkalla umhverfislegan ávinning

Landsbankinn er með lánasamning við Norræna fjárfestingarbankann (NIB) sem var undirritaður til sjö ára í október 2018. Í honum felst lánveiting til Landsbankans að fjárhæð 75 milljónir Bandaríkjadala. Lánið er ætlað til fjármögnunar á litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi og verkefnum tengdum umhverfismálum.

Norræni fjárfestingarbankinn er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu átta aðildarlanda: Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháen, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn lánar til opinberra verkefna og einkaverkefna jafnt innan sem utan aðildarríkjanna.

Eftirlit

FS9 Umfang og tíðni endurskoðunar og áhættumatsferlar

Hjá Landsbankanum er í gildi skilgreint matsferli fyrir mat á rekstraráhættu. Öll svið gangast undir árlegt mat á rekstraráhættu. Afrakstur þessa mats er áhættumiðuð kortlanging rekstraráhættu á samstæðugrunni. Þar sem áhættustig er hærra en gildandi áhættuvilji bankans er farið í leiðréttingaraðgerðir og fyrirbyggjandi aðgerðir og þeim fylgt eftir. Mat á rekstraráhættu nær til allra áhættuþátta rekstraráhættu, þ.m.t. til þess að innri ferlar bregðist eða séu ófullnægjandi, mannlegra eða kerfislægra þátta eða utanaðkomandi atburða. Matsferlið er ekki sérhæft fyrir mat á framkvæmd umhverfis- eða samfélagsstefnu.

Innri endurskoðun er hluti af áhættustýringarramma bankans auk þess að vera hluti af eftirlitskerfi hans. Innri endurskoðun metur rekstrarskilvirkni bankans, fylgni við ytri og innri reglur og kynnir bankastjórn. Starfsemi Innri endurskoðunar nær til allra sviða, þ.m.t. rekstraráhættu og endurskoðunarferlisins. Alþjóðlega skoðunarstofan BSI fylgist með fylgni bankans við ISO 27001 staðalinn um upplýsingaöryggi. Þar að auki framkvæmir bankinn sjálfur reglulega ýmsar úttektir til að hafa eftirlit með fylgni við staðalinn. Ytri endurskoðendur bankans fylgja stöðluðu verklagi til öflunar endurskoðunargagna um samstæðureikningsskil bankans. Við það athugar endurskoðandinn innra eftirlit sem snertir tilreiðslu og sannferðuga framsetningu fyrirtækisins á reikningsskilunum.


Fjármál

FS11 Hlutfall eigna sem rýndar hafa verið vegna áhrifa á umhverfi eða samfélag

Áhersla á innleiðingu samfélagsábyrgðar í kjarnastarfsemi

Stefna Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar er sett fram með hliðsjón að reglum United Nations Principles for Responsible Investment (UN PRI). Leggur Landsbankinn áherslu á samþættingu samfélagsábyrgðar við fjárfestingaákvarðanir í eignastýringu bankans. Landsbankinn hefur verið aðili að UN PRI síðan í ársbyrjun 2013. Þau fyrirtæki sem gangast undir reglur UN PRI skuldbinda sig til að veita upplýsingar um hvernig tekið er tillit til þessara þátta í framvinduskýrslu og hefur bankinn skilað slíkri skýrslu til samtakanna undanfarin ár. PRI gerir síðan kröfu til sinna aðildarfélaga að þau sýni framþróun á milli ára í innleiðingu á stefnu um ábyrgar fjárfestingar.

Með því að taka tillit til umhverfismála, félagslegra þátta og góðra stjórnarhátta þegar fjárfestingarkostir eru metnir er stutt við jákvæð áhrif á ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma litið og jafnframt dregið úr rekstaráhættu. Viðskiptaumhverfið er að breytast og frammistaða í samfélagsábyrgð og sjálfbærni er farin að hafa áhrif á hvernig áhætta í fyrirtækjarekstri er metin, sem og vaxtarmöguleikar fyrirtækja. Auk þess gera viðskiptavinir í auknum mæli kröfu um að stefnu um ábyrgar fjárfestingar sé framfylgt.

Samræður við útgefendur verðbréfa um samfélagsábyrgð eru til þess fallnar að stuðla að fyrirbyggjandi aðgerðum til að hagur bankans og fjárfesta verði sem best tryggður til framtíðar. Starfshættir Landsbankans varðandi ábyrgar fjárfestingar byggja því á virkum samræðum við útgefendur verðbréfa þar sem neikvæð skimun (útilokun) er undantekningartilvik.

Landsbankinn hefur lagt áherslu á að byggja upp þekkingu á ábyrgum fjárfestingum á innlendum markaði og var þannig einn af stofnaðilum innlendum Samtökum um ábyrgar fjárfestingar, IcelandSIF (e. Iceland Sustainable Investment Forum) árið 2017. Samtökunum er ætlað að vera óháður vettvangur fyrir umræðu og fræðslu um ábyrgar fjárfestingar. Einnig hefur bankinn leitast við að byggja upp þekkingu á svokallaðri regnbogafjármögnun sem er samheiti yfir græn, rauð og blá skuldabréf og hefur í dag byggt upp mikla sérfræðiþekkingu á slíkum útgáfum.

Markaðurinn hefur tekið vel í kosti grænnar útgáfu en ljóst er að á Íslandi liggja mörg tækifæri. Fjármagnsmarkaðurinn er í lykilstöðu til að veita umhverfisvænum verkefnum brautargengi og stuðla þannig enn frekar að bættu umhverfi. Til að mynda var Landsbankinn samstarfsaðili Lánasjóðs sveitarfélaga við gerð grænnar umgjarðar um útgáfu skuldabréfa. Umgjörðin var útbúin í þeim tilgangi að gefa út græn skuldabréf og hefur hún hlotið vottun frá Sustainalytics, sem er leiðandi vottunaraðili á heimsvísu. Samkvæmt vottuninni er umgjörð Lánasjóðsins trúverðug, áhrifarík, gagnsæ og í samræmi við alþjóðleg viðmið sem Alþjóðasamtök aðila á verðbréfamarkaði (e. International Capital Market Assoiciation-ICMA) hefur sett saman. Tilgangur fyrirhugaðrar skuldabréfaútgáfu er að fjármagna verkefni sveitarfélaga sem stuðla að umhverfisvernd og sporna gegn loftslagbreytingum í samræmi við umhverfisstefnu Lánasjóðsins.

Landsbankinn og Landsbréf hafa skrifað undir þjónustusamning við Reitun ehf. um áhættumat á umhverfislegum og félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS) útgefanda hlutabréfa og skuldabréfa. Nánar má lesa um UFS-matið ofar í þessum kafla í vísinum FS3 – Næstu skref.

G4-FS13 Aðgangur að bankaþjónustu

Almenn bankaþjónusta er að mestu orðin aðgengileg í sjálfsafgreiðslu. Viðskiptavinir Landsbankans hafa því aðgang að almennri bankaþjónustu allan sólarhringinn í gegnum Landsbankaappið og netbanka Landsbankans á þremur tungumálum. Þjónusta við reiðufé er víða aðgengileg allan sólarhringinn í gegnum hraðbanka og myntvélar.

Landsbankinn rak í árslok 2019 88 hraðbanka á 63 stöðum um land allt. Bankinn hefur undanfarin ár fjölgað hraðbönkum sem bæði er hægt að taka reiðufé út úr og leggja inn. Í öllum útibúum á höfuðborgarsvæðinu eru gjaldeyrishraðbankar auk þess sem gjaldeyrishraðbankar eru á Akranesi, Akureyri, Höfn í Hornafirði, í Reykjanesbæ og Smáralind.

Rafrænum lausnum fjölgar stöðugt samhliða almennri tækniþróun og leitast er við að breytingar á útibúaneti haldist í hendur við tækniframfarir og aukna möguleika viðskiptavina til sjálfsafgreiðslu. Lausnir sem byggja á rafrænni auðkenningu viðskiptavina og rafrænu samþykki þeirra eru í stöðugri þróun. Nú þegar fjölga slíkar lausnir sjálfsafgreiðslumöguleikum sem bætir aðgengi og gerir viðskiptavinum kleift að sinna bankaþjónustu hvar og hvenær sem þeim hentar. Sem dæmi um lausnir má nefna að viðskiptavinir geta nú með einföldum hætti breytt kreditkortaheimild sinni sjálfir í gegnum netbanka Landsbankans eða í Landsbankaappinu. Markvisst er unnið að því að kenna viðskiptavinum að nýta sér sjálfsafgreiðslu og auka aðgengi að henni í útibúum bankans. Í útibúum Landsbankans geta viðskiptavinir fengið leiðsögn í notkun stafrænna lausna og reiðufjárþjónustu hraðbanka.

Útibú Landsbankans eru 37 og eru staðsett víða um land. Nánari upplýsingar um útibú bankans, afgreiðslur og þjónustuheimsóknir er að finna á vefsíðu bankans.

G4-FS14 Sértæk þjónusta við viðskiptavini

Til viðbótar við sjálfsafgreiðslulausnir, þjónustu útibúa og afgreiðslna bankans heldur Landsbankinn úti þjónustuheimsóknum á nokkrum stöðum. Þá hefur bankinn leitað nýrra leiða til að tryggja viðskiptavinum aðgengi að ákveðnum þáttum bankaþjónustu, t.d. með samningum um reiðufjárúttektir við verslanir. Í þessu samhengi er horft til sérstakra þarfa eða aðstöðu viðskiptavina, s.s. fjarlægðar frá næsta afgreiðslustað, samgangna og til sérstöðu ákveðinna hópa viðskiptavina, t.d. eldri borgara og þeirra sem ekki eiga hægt um vik með að sækja þjónustu á næsta afgreiðslustað bankans.

Þjónustuheimsóknir
Vestfirðir Þingeyri, Tálknafjörður, Reykhólahreppur og Dvalarheimilið Hlíf á Ísafirði, einu sinni í viku, og Súðavík, aðra hverja viku.

Viðskiptavinir

G4-DMA (FS16) Aðgerðir til að bæta fjármálalæsi eftir markhópum

Viðskiptalausnir á Einstaklingssviði bankans sjá um fjármálafræðslu til einstaklinga og eflingu fjármálalæsis. Víðtæk umfjöllun og fræðsla um efnahag og fjármál í víðum skilningi fer fram á Umræðunni, frétta- og efnisveitu Landsbankans.

Landsbankinn hefur um árabil lagt áherslu á fjármálafræðslu fyrir ungmenni í framhaldsskólum, bæði yngri nemendur sem eru að hefja nám, sem og þá sem senn ljúka námi. Fræðslunni er ætlað að efla fjármálaskilning nemenda og gera þá betur í stakk búna til að gera áætlanir til framtíðar. Fræðsluheimsóknirnar standa öllum framhaldsskólum til boða og eru skipulagðar í samstarfi við fulltrúa þeirra.

Á árinu 2019 voru farnar 48 heimsóknir í 13 framhaldsskóla víða um land sem óskuðu eftir fræðslu og náði fræðslan þannig til um 1.300 nemenda. Ekki fer fram kynning á vörum eða þjónustu bankans heldur er um að ræða almenna fjármálafræðslu. Starfsfólk í Þjónustuveri bankans hafa sinnt fræðslu á höfuðborgarsvæðinu og starfsfólk útibúa á landsbyggðinni hafa séð um kynningar í sínu nágrenni. Lögð er áhersla á að yngra starfsfólk sinni fræðslunni svo að hún sé sem næst því að vera á jafningjagrunni.

Landsbankinn tekur einnig virkan þátt í verkefninu Fjármálavit, sem er námsefni í fjármálafræðslu fyrir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og Landssamtök lífeyrissjóða (LL) standa að verkefninu í samstarfi við aðildarfélögin og starfsfólk þeirra um land allt. Ríflega hundrað starfsfólk fjármálafyrirtækja, tryggingafélaga og lífeyrissjóða voru á ferðinni á síðasta ári, þar af 25 úr hópi starfsfólks Landsbankans. Alls fengu um 3.000 nemendur tíunda bekkjar að kynntast Fjármálaviti og vinna verkefni þess á liðnu ári en frá upphafi verkefnisins fyrir fimm árum hefur Fjármálavit náð til 20.000 nemenda.