Samstarf

Landsbankinn styður og tekur þátt í fjölbreyttum samfélags-
verkefnum sem stuðla að uppbyggingu og framþróun í samfélaginu.

Landsbankinn styður margvísleg samfélagsverkefni með fjárframlögum úr Samfélagssjóði, með stuðningi útibúa við verkefni í nærsamfélagi og með samstarfssamningum. Einnig er leitast við að auka beina þátttöku starfsfólks í samfélagsverkefnum, m.a. með ráðgjöf á ýmsum sviðum sem tengjast fjármálum og nýsköpun.

Lögð er áhersla á að stuðningur bankans við samfélagið sé fjölbreyttur og að hann nýtist mörgum. Verkefnin eru fjölbreytt og með þeim styður Landsbankinn m.a. slysvarna- og björgunarstarf, listir og menningu, íþróttalíf, fræðslu, og réttindabaráttu hinsegin fólks.

Gulleggið

Landsbankinn er styrktaraðili Gulleggsins sem er árleg frumkvöðlakeppni á vegum Icelandic Startups. Meginmarkmið keppninnar er að skapa vettvang fyrir ungt athafnafólk til að öðlast þjálfun og reynslu í mótun nýrra viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja. Samhliða keppninni er þátttakendum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga við allt frá mótun hugmyndar til áætlanagerðar og þjálfunar í samskiptum við fjárfesta.Nánar um Gulleggið

Slysavarnafélagið Landsbjörg

Landsbankinn er einn af aðalstyrktaraðilum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Bankinn vill styðja öflugt slysavarna- og björgunarstarf um allt land. Slysavarnafélagið Landsbjörg eru landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi og ein stærstu sjálfboðaliðasamtök á Íslandi. Markmið starfseminnar er að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum.Nánar um Landsbjörg

Fjármálafræðsla


Viðskiptalausnir á Einstaklingssviði bankans sjá um fjármálafræðslu til einstaklinga og eflingu fjármálalæsis. Víðtæk umfjöllun og fræðsla um efnahag og fjármál fer fram á Umræðunni, frétta- og efnisveitu Landsbankans.

Landsbankinn hefur um árabil lagt áherslu á fjármálafræðslu fyrir ungmenni í framhaldsskólum, bæði yngri nemendur sem eru að hefja nám, sem og þá sem senn ljúka námi. Fræðslunni er ætlað að efla fjármálaskilning nemenda og gera þá betur í stakk búna til að gera áætlanir til framtíðar. Fræðsluheimsóknirnar standa öllum framhaldsskólum til boða og eru skipulagðar í samstarfi við fulltrúa þeirra.

Á árinu 2019 var farið í 48 fræðsluheimsóknir í 13 skóla víða um land. Alls fengu 1300 nemendur fjármálafræðslu. Ekki fer fram kynning á vörum eða þjónustu bankans heldur er um að ræða almenna fjármálafræðslu.

 


Starfsfólk í Þjónustuveri bankans hafa sinnt fræðslu á höfuðborgarsvæðinu og starfsmenn útibúa á landsbyggðinni hafa séð um kynningar í sínu nágrenni. Lögð er áhersla á að yngra starfsfólk sinni fræðslunni svo að hún sé sem næst því að vera á jafningjagrunni.

Landsbankinn tekur einnig virkan þátt í verkefninu Fjármálavit, sem er námsefni í fjármálafræðslu fyrir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og Landssamtök lífeyrissjóða (LL) standa að verkefninu í samstarfi við aðildarfélögin og starfsfólk þeirra um land allt. Ríflega hundrað starfsfólk fjármálafyrirtækja, tryggingafélaga og lífeyrissjóða voru á ferðinni á síðasta ári, þar af 25 úr hópi starfsfólks Landsbankans. Alls fengu um 3.000 nemendur tíunda bekkjar að kynntast Fjármálaviti og vinna verkefni þess á liðnu ári en frá upphafi verkefnisins fyrir fimm árum hefur Fjármálavit náð til 20.000 nemenda.Nánar um Fjármálavit

Fjártækniklasinn

Landsbankinn er einn af stofnaðilum Fjártækniklasans ásamt 62 fyrirtækjum, háskólum, samtökum og fleiri aðilum. Tilgangur Fjártækniklasans er að efla nýsköpun í fjármálum og gera viðskipti af öllu tagi auðveldari og betri. Hann er samfélag þeirra sem starfa við fjártækni og vilja stuðla að aukinni verðmætasköpun, samkeppni og bættum lífskjörum. Fjártækniklasinn mun standa fyrir viðburðum, svo sem fundum um margvísleg svið fjártækni, kynningar á nýsköpunarfyrirtækjum, fyrirtækjastefnumót og fleira. Klasinn vinnur einnig að framgangi fjártækni á allan hátt, svo sem með tengingum við erlend fyrirtæki og klasa, tengingu á milli mögulegra samstarfsaðila og ýmiskonar sérverkefnum.Nánar um Fjártækniklasann

Forritarar framtíðarinnar

Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Helsta markmið sjóðsins er að forritun verði hluti af námskrá grunn- og framhaldsskóla. Sjóðurinn styrkir skóla svo að þeir geti boðið upp á forritunarkennslu fyrir nemendur, gefur skólum tölvubúnað og veitir ráðgjöf til menntur og þjálfunar kennara í forritunarkennslu. Landsbankinn er einn af bakhjörlum sjóðsins ásamt Reiknistofu bankanna, menntamálaráðuneytinu, CCP, Icelandair og fleirum fyrirtækjum.Nánar um Forritara framtíðarinnar

Skólahreysti


Landsbankinn er aðalbakhjarl Skólahreysti og leggur keppninni lið af krafti. Markmið Skólahreysti er að hvetja börn til að taka þátt í alhliða íþróttaupplifun sem byggð er á grunnforsendum almennrar íþróttakennslu og þar sem keppendur vinna að mestu leyti með eigin líkama í þrautum. Vinsældir Skólahreysti hafa aukist ár frá ári.


Keppnin var haldin í fimmtánda sinn vorið 2019 með þátttöku 100 grunnskóla af öllu landinu. Auk Landsbankans nýtur Skólahreysti stuðnings mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Norrænu ráðherranefndarinnar, Toyota og Íþrótta- og ólympíusambandsins.Nánar um Skólahreysti

Klasasamstarf í ferðaþjónustu


Landsbankinn hefur verið aðili að klasasamstarfi í ferðaþjónustu frá upphafi samstarfsins árið 2012. Helsta markmið þess er að auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun innan ferðaþjónustunnar og er verkefnið unnið í anda klasaaðferðafræði Michaels Porters. Að klasasamstarfinu standa lykilfyrirtæki á sviði ferðaþjónustu, opinberir aðilar og fyrirtæki sem styðja við eða eiga samstarf við greinina.Nánar um Íslenska ferðaklasann

Lánatryggingasjóðurinn Svanni

Í samstarfi við Svanna – lánatryggingasjóð kvenna veitir Landsbankinn konum í atvinnurekstri lán sem sjóðurinn og bankinn ábyrgjast sameiginlega. Landsbankinn veitir helming ábyrgðar á móti sjóðnum og tryggir þannig konum í nýrri starfsemi rýmri aðgang að fjármagni en ella og eykur möguleika þeirra á að stofna fyrirtæki. Samstarfssamningurinn er liður Landsbankans í að efla atvinnulíf og hvetja til nýsköpunar í landinu.Nánar um Svanna

Hinsegin dagar


Landsbankinn styður réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi heilshugar og hefur verið stoltur bakhjarl Hinsegin daga í Reykjavík frá upphafi. Hátíðin fagnaði 20 ára afmæli sínu með afmælishátíð árið 2019 og var dagskráin veglegri en nokkru sinni fyrr.


Árið 2017 var samstarfið eflt enn frekar með nýjum styrktarpotti – Gleðigöngupottinum. Markmiðið með Gleðigöngupottinum er að styðja einstaklinga og smærri hópa við undirbúning og framkvæmd atriða í gleðigöngu Hinsegin daga og þannig auðvelda þátttöku í Hinsegin dögum.Nánar um Hinsegin daga

Kraftur

Í lok árs styrkti Landsbankinn Kraft og var styrkurinn veittur í nafni 873 fyrirtækja sem höfðu hlotið útnefninguna Framúrskarandi fyrirtæki eftir greiningu Creditinfo. Kraftur er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. Ár hvert greinast um 70 einstaklingar á aldrinum 18-40 ára með krabbamein og veitir Kraftur þeim og aðstandendum þeirra bæði fjárhagslegan og andlegan stuðning.Nánar um Kraft

Samtök um ábyrgar fjárfestingar, IcelandSIF

Samtök um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi, IcelandSIF, voru stofnuð í nóvember 2017. Tilgangur samtakanna er að stuðla að aukinni þekkingu og umræðu um aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Landsbankinn er eitt af 23 fyrirtækjum sem tók þátt í stofnun samtakanna en þeim er ætlað að vera óháður vettvangur fyrir umræðu og fræðslu um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.Nánar um IcelandSIF

Íslenski sjávarklasinn

Landsbankinn er samstarfsaðili Íslenska sjávarklasans, en tilgangur hans er að efla samkeppnishæfni og verðmætasköpun íslenskra fyrirtækja sem byggja afkomu sína á nýtingu sjávar, með beinum eða óbeinum hætti. Íslenski sjávarklasinn hefur frá stofnun stuðlað að framþróun og nýsköpun í þeim greinum sem mynda klasann, í samstarfi við fyrirtæki og menntastofnanir, og stendur fyrir útgáfu greininga og rannsókna af ýmsu tagi. Um 60 fyrirtæki og stofnanir í margvíslegri sjávartengdri starfsemi á Íslandi eiga formlega aðild að samstarfsvettvangi Íslenska sjávarklasans.Nánar um Íslenska sjávarklasann

Vigdísarstofnun

Á árinu 2019 styrkti Landsbankinn Vigdísarstofnun sem starfrækt er í Veröld – húsi Vigdísar. Vigdísarstofnun er alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar og hlaut í nóvember 2011 samþykki Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, til að starfa undir merkjum hennar.Nánar um Vigdísarstofnun