Samfélag

102-43 Ánægja viðskiptavina

Árið 2019 var ánægja viðskiptavina Landsbankans mæld í þremur rannsóknum: CE4 könnun Gallup, Íslensku ánægjuvoginni og EMC rannsóknir um samfélagslega ábyrgð.

Gallup framkvæmir könnun sem mælir CE4 stuðul sem lýsir gæðum viðskiptasambands milli viðskiptavina og aðalviðskiptabanka með tilliti til ánægju, trausts, tryggðar og stolts af því að vera í viðskiptum. Þessi stuðull hét áður CE11 en nafninu var breytt á árinu. Í lok árs 2019 mældust Landsbankinn og annar banki hnífjafnir í efsta sæti með einkunnina 3,9 sem er hækkun um 0,2 frá því árið 2018.

Landsbankinn mældist efstur banka í Íslensku ánægjuvoginni 2019.
CE4 niðurstöður - Landsbankinn

EMC rannsóknir framkvæma rannsókn þar sem landsmenn eru spurðir hversu samfélagslega ábyrg þeir telja 89 stærstu fyrirtæki landsins vera á skalanum 1-5.

Þar er niðurstaðan sú að á kvarðanum 1-5 fær Landsbankinn 2,6 og mælist næst hæstur af bönkunum fjórum sem mældir eru í rannsókninni.

Hér að neðan má sjá dreifingu einkunna í EMC rannsóknum en miðgildi var ekki birt fyrir árið 2019 líkt og fyrir árið 2018.

EMC rannsókn

102-2 Starfsemi, vörumerki og þjónusta

Í siðasáttmála Landsbankans er kveðið á um að starfsfólk sýni fagmennsku og heiðarleika með því að leita upplýsinga og fylgja lögum, reglum, viðurkenndum starfsháttum, siðareglum og öðrum viðmiðum sem eiga við störf þess hverju sinni. Auk þess að lúta almennum lögum um neytendavernd og markaðssetningu, fylgir það starfsfólk bankans sem sinnir markaðssetningu leiðbeinandi siðareglum Sambands íslenskra auglýsingastofa (SÍA) og leiðbeinandi reglum talsmanns neytenda og umboðsmanns barna um markaðssókn til barna. Landsbankinn tekur enn fremur tillit til reglugerðar um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, nr. 995/2007, en tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja að upplýsingar um fjárfestingarsjóði séu skýrt og rétt fram settar. Engar athugasemdir eða kærur hafa borist á árinu.

Vinnuafl

401-1 Nýráðningar og starfsmannavelta

Í árslok 2019 starfaði 925 starfsfólk í 875 stöðugildum í Landsbankanum. Þar af eru 58% með háskólamenntun.

Af nýráðningum voru 39% karlar og 61% konur.

Lausráðið starfsfólk eru þeir sem eru að hefja störf hjá Landsbankanum, en þeir fá fastráðningu eftir þrjá til sex mánuði. Árið 2019 hætti einn starfsmaður sem ráðinn var til framtíðarstarfa.

Starfsmannaveltan á árinu 2019 var 5,6% í samanburði við 9,2% árið 2018.

Heildarstarfsmannafjöldi eftir aldri í árslok 2019
Nýráðnir starfsmenn í árslok 2019 - aldur
Nýráðnir starfsmenn í árslok 2019 - kyn

401-2 Hlunnindi fyrir fastráðið starfsfólks sem ekki bjóðast lausráðnum eða starfsfóki í hlutastarfi

Starfsfólk Landsbankans nýtur hlunninda samkvæmt kjarasamningi SSF og SA, hjá Félagi starfsmanna Landsbankans (FSLÍ) og Landsbankanum hf. Kjörin eru mismunandi eftir því hvort starfsfólk sé lausráðið eða fastráðið. Í sumum tilfellum getur lausráðið starfsfólk notið sömu kjara og fastráðið starfsfólk.

Allt starfsfólk, jafnt fastráðið sem lausráðið, njóta aðgangs að trúnaðarlækni, hádegisverði, slysatryggingu, foreldra- og fæðingarorlofi og sjúkrasjóði.

Allt fastráðið starfsfólk er líftryggt, fær örorkustyrk ef svo ber undir og fær greiddan að hluta mismun á launum og greiðslum frá fæðingarorlofssjóði.

Auk ofangreinds nýtur starfsfólk ýmissa fríðinda eins og aðgangs að orlofshúsum, íþróttastyrkja, samgöngustyrks, námsstyrkja og tómstundastyrkja. Nánari upplýsingar um þau fríðindi sem standa starfsfólki til boða er að finna á vefsíðu bankans.

401-3 Foreldraorlof

Á árinu 2019 fækkaði konum sem tóku fæðingarorlof um 6% frá árinu 2018 og körlum fækkaði um 8%. Bæði konur og karlar tóku styttri fæðingarorlof árið 2019 samanborið við 2018.

Þrír starfsmenn, allt karlar, kusu að koma ekki aftur til vinnu eftir fæðingarorlof.

Starfsfólk í fæðingarorlofi 2014 2015 2016 2017 2018 2019 Breyting milli ára
Meðalfjöldi kvenna í fæðingarorlofi 16 17 16 11 14 13 -6%
Meðalfjöldi karla í fæðingarorlofi 8 7 6 6 8 7 -8%
Meðalfjöldi vikna í fæðingarorlofi - konur 56 59 58 37 48 43 -11%
Meðalfjöldi vikna í fæðingarorlofi - karlar 20 17 16 14 19 18 -5%

Kjaramál

402-1 Lágmarks uppsagnarfrestur vegna breytinga á starfsemi

Almennur uppsagnarfrestur starfsmanna er eftirfarandi:

Lausráðnir starfsmenn – 2 mánuðir.

Fastráðnir starfsmenn – 3 mánuðir.

Fastráðnir starfsmenn með yfir 10 ára starfsreynslu í fjármálafyrirtæki eða a.m.k. 45 ára lífaldur – 6 mánuðir.

Verklag og fjöldi ábendinga vegna mannauðsmála og úrlausn þeirra

Komi upp ágreiningur eða önnur atvik sem fara þarf yfir, ber starfsfólki að leita til næsta yfirmanns og sem skal leysa úr málinu eða kalla til sérfræðinga Mannauðs þegar þess gerist þörf. Eigi ágreiningur rætur að rekja til samskipta starfsmanns og yfirmanns getur starfsfólkn leitað beint til Mannauðs. Viðbragðsáætlun Landsbankans vegna eineltis og/eða kynferðislegrar áreitni hefur verið uppfærð og kynnt starfsfólki.

Engin kvörtun barst árið 2019 vegna eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar mismununar eða ofbeldis.

Í bankanum starfa siðanefnd og jafnréttisnefnd og getur starfsfólk sent ábendingar beint til nefndanna ef þeir telja að annað starfsfólk eða bankinn sjálfur brjóti gegn ákvæðum siðasáttmála eða jafnréttisstefnu bankans. Siðanefnd og jafnréttisnefnd bárust engin mál á árinu 2019.

403 Vinnueftirlit

Hjá Landsbankanum starfar vinnuverndarnefnd í samræmi við lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Bankinn skipar tvo einstaklinga og starfsmannafélag kýs aðra tvo einstaklinga til starfa í nefndinni. Nefndin fundar reglulega og með aðkomu fulltrúa starfsmannafélags er tryggt gott samstarf við trúnaðarmenn víðs vegar um landið.

Starfsfólki stendur til boða íþróttastyrkur til samræmis við skattviðmið RSK, nú kr. 60.000 á ári. Annað hvert ár stendur öllu starfsfólki til boða ítarleg heilsufarsskoðun hjá trúnaðarlækni eða heilsugæslu. Nánar má lesa um mannauðs- og heilsustefnu Landsbankans hér á heimasíðu hans.

Fjöldi veikindadaga

Veikindaréttindi starfsfólks fjármálafyrirtækja eru nokkuð víðtæk. Þau eru tengd starfsaldri, miðast við 12 mánaða tímabil og eru eftirfarandi:

Lausráðið starfsfólk á rétt á fullum launum í 30 daga og ½ launum í 30 daga.

Fyrir fastráðið starfsfólk er veikindaréttur 3 mánuðir á fullum launum og 3 mánuðir á ½ launum.

Eftir 10 ár í starfi er rétturinn 4 mánuðir á fullum launum og 4 mánuðir á ½ launum.

Eftir 15 ár í starfi er rétturinn 6 mánuðir á fullum launum og 6 mánuðir á ½ launum.

Eftir 20 ár í starfi er rétturinn 12 mánuðir á óskertum launum.

Starfstengdir sjúkdómar eru ekki skráðir sérstaklega í bankanum. Oftast er um stoðkerfisvandamál að ræða sem gætu einnig tengst öðru en vinnuumhverfi.

Meðalfjöldi veikindadaga starfsfólks var 8,1 dagar árið 2019 á móti 8,7 dögum árið 2018. Langtímaveikindi starfsfólks (fjarvera í meira en fjórar vikur samfleytt) voru 8,1% árið 2019. Að frádregnum langvarandi veikindum var meðalfjöldi veikindadaga starfsfólks 5,1 dagur árið 2019.

Meðalfjöldi fjarvistadaga vegna veikinda barna var 1,2 dagur árið 2019 á móti 1,5 degi árið 2018.

Þjálfun og menntun

404-1 Meðaltími fræðslustunda á starfsmann á ári

Áskoranir í mannauðsmálum

Fjármálafyrirtæki standa frammi fyrir ýmsum áskorunum í mannauðsmálum og er Landsbankinn þar engin undantekning. Bankinn þarf að vera eftirsóknarverður vinnustaður til framtíðar og brúa bilið sem kann að myndast með breyttri aldurssamsetningu vinnuafls. Störfin eru að breytast vegna sjálfvirknivæðingar og huga þarf að færniþróun starfsfólks til að tryggja rétta hæfni og kunnáttu í hverju starfi.

Landsbankinn leggur áherslu á og hvetur starfsfólk til að eflast og þróast í starfi. Á árinu 2019 var lagt upp með að halda áfram að koma markvisst á framfæri skilaboðum um mikilvægi og ávinning þess að sækja þekkinguna. Sú vinna hófst árið 2018. Starfsumhverfið kallar á að starfsfólk sé meðvitaðra um eigin starfsþróun og fái stuðning og tækifæri til að sækja sér þá þekkingu sem það þarf hverju sinni. Í fræðslustarfinu er því lögð áhersla á stuðning við öfluga lærdómsmenningu. Starfsfólki stóð til boða náms- og starfsráðgjöf sem veitti því tækifæri til að greina eigin stöðu og stuðla að eigin starfsþróun. Í ráðgjöfinni var lögð áhersla á upplýsingamiðlun, fræðslu og leiðsögn sem miðar að því að skoða hentuga námsmöguleika og leiðir til símenntunar.

Nýir færniþættir kynntir með öflugri fræðslu

Hjá Landsbankanum býðst starfsfólki að sækja fjölbreytta fræðsludagskrá. Framboð fræðslu tekur mið af áherslum í starfi bankans hverju sinni og er markmiðið að starfsfólk geti sótt fræðslu og þjálfun sem stuðlar að því að færa bankann nær settum markmiðum. Einnig á starfsfólk þann kost að sækja fræðslu hjá öðrum símenntunaraðilum, s.s. námskeið, ráðstefnur og fyrirlestra að eigin frumkvæði.

Á árinu 2019 var lögð áhersla á að kafa enn dýpra með því að byrja að kynna og fræða um þá færniþætti sem æskilegt og eftirsóknarvert er að hafa í breyttu starfsumhverfi nútímans. Verkefnið markviss starfsþróun var sett á laggirnar í fyrsta sinn þar sem Mannauðsdeild bankans auglýsti eftir upprennandi leiðtogum eða sérfræðingum sem hefðu áhuga á að taka þátt. Alls bárust 45 umsóknir og fengu 18 þátttakendur tækifæri til þátttöku.

Þátttakendur fá m.a. einstaklingstíma í markþjálfun og stuðning við að byggja upp starfsþróunaráætlun. Þau taka þátt í námskeiðum og vinnustofum sem styrkir starfsfólk jafnt í starfi sem og persónulega. Starfsfólk byggir upp færni í þeim þáttum sem falla undir svokallaða 21. aldar færniþætti. Reynslan af verkefninu er mjög jákvæð og verður áframhald á því.

Boðið var upp á fyrirlestraröð fyrir allt starfsfólk á árinu 2019 undir heitinu 21. aldar færni. Þar var fjallað um stafrænt læsi sem er einn af þremur færniþáttum sem fellur undir 21. aldar færni hugtakið. Undir stafrænt læsi fellur upplýsingalæsi, miðlalæsi (fjölmiðlar og samfélagsmiðlar) og tæknilæsi. Einstaklingar sem búa yfir þessari færni eiga að geta greint aðalatriði og notað efni á réttan hátt. Fyrirlestrarnir sem voru á dagskrá fjölluðu m.a. um börn og netið, persónuupplýsingar á netinu, falsfréttir og framtíð lýðræðis, og netöryggismál.

Færniþættir 21. aldar

Náms- og nýsköpunarhæfni Stafrænt læsi Styrkleikar í starfi og lífi
Gagnrýnin og lausnamiðuð hugsun Upplýsingalæsi Sveigjanleiki og aðlögunarhæfni
Sköpunargleði og nýsköpun Miðlalæsi Frumkvæði og sjálfstæði
Samskiptahæfni Tæknilæsi Félagsleg og þvermenningarleg samskipti
Samvinnuhæfni
Afköst og áreiðanleiki


Leiðtogahæfni og ábyrgð

Rafræn fræðsla

Rafrænum leiðum til að læra hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og með tilkomu nýs fræðslukerfis er orðið enn auðveldara að bjóða upp á rafræna fræðslu innan bankans. Starfsfólk hefur þannig möguleika á að sækja fræðslu sem er í boði innan bankans, þegar og þar sem hentar. Sífellt fleira starfsfólk nýtir sér þennan möguleika. Boðið var upp á 42 rafræn námskeið í fræðsludagskránni 2019 og lauk um 4800 starfsfólk þátttöku. Lauk hver starfsmaður að meðaltali um 5 rafrænum námskeiðum á árinu.

Árið 2019 var rafræna námslínan nýliðaþjálfun birt í fyrsta sinn á Torginu, fræðsluumhverfi Landsbankans. Starfsfólki, sem er að hefja störf hjá bankanum í fyrsta sinn, er skylt að ljúka námslínunni þar sem dregnar hafa verið saman allar mikilvægustu upplýsingarnar sem nýr starfsmaður þarf að kynna sér fyrstu vikurnar og mánuðina í starfi. Námslínan inniheldur 9 rafræn námskeið sem snúa almennt að starfsreglum, siðasáttmála og annarri fræðslu um regluverk bankans. Stjórnendur hafa yfirsýn í kerfinu og bera ábyrgð á því að sitt nýja starfsfólk klári alla námslínuna.

Meginverkefni tengd fræðslustarfi árið 2019

  • Markviss starfsþróun
  • Rafræn nýliðaþjálfun
  • 21. aldar færni
  • Stafrænt læsi
  • Samstarf við Mími símenntun um náms- og starfsráðgjöf
  • Aukið framboð rafrænnar fræðslu
  • Áhersla á mikilvægi þess að sækja sér þekkingu og byggja upp eftirsóknarverða færniþætti

Fræðslustarfið í tölum

Árið 2019 var boðið upp á 166 fræðsluviðburði í fræðsludagskrá bankans og voru þátttakendur 3139. Hver starfsmaður sótti að meðaltali 3 viðburði.

Þegar fræðslunni er skipt upp eftir flokkum var mest um fræðslu í flokknum starfstengd hæfni. Þar er um að ræða fræðslu sem tengist starfsemi bankans á beinan eða óbeinan hátt. Hátt hlutfall flokksins skýrist aðallega af áherslu á EKKO-fræðslu (einelti, kynferðislegt áreiti, kynbundið ofbeldi og ofbeldi) og af áherslu á fræðslu um 21. aldar færni á árinu.

Skipting fræðslu eftir tegund árið 2019
Skipting fræðslu eftir flokkum árið 2019

Ástundun fræðslu

Í fræðsludagskrá bankans er skyldufræðsla fyrir starfsfólk. Sé litið til fræðslu sem er ekki skyldufræðsla sótti 89% starfsfólks sér einhverja starfstengda símenntun á vegum bankans á árinu.

Virkni í fræðslu eftir sviðum

Ástundum fræðslu er mikil þegar litið er yfir öll svið bankans samans. Mest er virknin hjá Bankastjórn (96%), Áhættustýringu (94%) og á Fyrirtækjasviði (93%). Minnst ástundun var hjá Mörkuðum (84%) og Einstaklingssviði (83%). Ástundun í fræðslu tekur til fræðsluviðburða og rafrænnar fræðslu sem er ekki skylda og eru á fræðsludagskrá. Þá er einnig litið til fræðslu sem er sótt utanhúss á kostnað bankans.

Virkni í fræðslu eftir sviðum

Starfsfólk sem á kost á að sækja fræðslu: Fastráðið starfsfólk sem hefur verið í starfi samfellt í 9 mánuði á árinu og sumarstarfsfólk. Starfsfólk sem getur sótt fræðslu á fræðsludagskrá bankans og/eða á kost á að sækja fræðslu utan bankans á hans kostnað. Virk í fræðslu: Starfsfólk sem hefur nýtt sér fyrrnefnda möguleika til að sækja fræðslu á 12 mánaða tímabili.

Jafnrétti til símenntunar

Virkni í fræðslu eftir starfsheiti og kyni

Lögð er áhersla á að karlar og konur hafi jöfn tækifæri til þátttöku í fræðslu. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá virkni í fræðslu eftir starfsheiti og kyni. Sé litið til fjölda starfsfólks sem átti kost á að sækja fræðslu á árinu 2019 eru konur virkari í fræðslu en karlar. Virkni í fræðslu er mest hjá konum sem eru stjórnendur í höfuðstöðvum og hjá kvenkyns stjórnendum í útibúum. Meðal stjórnenda í útibúum er þó hlutfall karla og kvenna sem sækja fræðslu það sama. Meðal stjórnenda heilt á litið í bankanum eru konur virkari í fræðslu en karlar.

Virkni í fræðslu eftir starfsheiti og kyni

404-2 Dagskrá til að uppfæra hæfni starfsfólks og til að aðlagast breytingum

Stjórnendaþjálfun

Fræðsla og þjálfun fyrir stjórnendur er stór hluti af fræðslustarfi bankans. Síðustu ár hafa stjórnendur farið í gegnum umfangsmikla þjálfun sem hefur verið fylgt eftir með markvissum hætti. Stjórnendum stendur til boða að fá einstaklingsmiðaða stjórnendaþjálfun hjá markþjálfa auk þess að sækja sérsniðin námskeið.

Nýliðaþjálfun

Þau sem hefja störf hjá bankanum í fyrsta sinn þurfa að fara í gegnum ákveðna þjálfun og fræðslu. Nýtt starfsfólk fer í gegnum rafræna skyldufræðslu innan átta vikna frá því að það hefur störf. Að öðru leyti fer þjálfun fram á starfsstöð. Sumarstarfsfólk sem hefur ekki starfað hjá bankanum áður er boðað á fræðsludag þar sem farið er yfir helstu þætti í starfsemi bankans og unnið markvisst að hvatningu, hópefli og teymisvinnu. Einnig eru námskeið á fræðsludagskrá sem eru sérstaklega ætluð sumarstarfsfólki.

Fræðsla fyrir starfsfólk í framlínu

Í takt við aukningu á stafrænum lausnum fyrir viðskiptavini bankans hafa verkefni starfsfólks í framlínu tekið breytingum. Í fræðslu fyrir starfsfólk í framlínu er m.a. lögð áhersla á vörur bankans, nýtt verklag og vinnubrögð og breytingar á lagaumhverfi. Workplace er orðið mikilvægt tæki innan bankans til að miðla nýjum upplýsingum og þá sérstaklega til framlínu. Síðustu ár hefur það því færst í aukana að starfsfólk í útibúum læri saman á skipulögðum fundum og miðli þekkingu sín á milli. Starfsfólk á landsbyggðinni á kost á þátttöku í fræðslu í gegnum vefútsendingu.

Styrkir til náms og símenntunar

Starfsfólk Landsbankans getur sótt um styrki til náms og símenntunar. Í boði eru styrkir til lengra náms, s.s. til stúdentsprófs, háskólaprófs eða löggildingar, sem og styttri námskeiða sem sótt eru utan vinnutíma. Alls fékk 64 starfsfólk styrk til að stunda nám samhliða starfi á árinu 2019, sem er svipaður fjöldi og 2018, en 480 starfsfólk nýttu sér styrki til að sækja styttri námskeið, sem er rúmlega helmingsaukning frá árinu 2018.


Aukin meðvitund um mikilvægi fræðslu fyrir starfslok

Námskeið um starfslok og lífeyrismál

Árlega er boðið upp á starfslokanámskeið fyrir starfsfólk sem hyggur á starfslok á næstu tveimur árum. Markmiðið er starfsfólk geti undirbúið sig vel fyrir mikilvæg tímamót og stuðla þannig að góðri heilsu, ánægju og vellíðan á efri árum. Ásókn í námskeiðið hefur aukist á milli ára en árið 2019 var mikil eftirspurn og því var boðið upp á tvö námskeið, eitt á vorönn og annað á haustönn. Alls sótti 35 starfsmenn bankans starfslokanámskeið 2019, samanborið við 12 starfsfólk árið 2018. Einnig eru reglulega námskeið um lífeyrismál á fræðsludagskrá sem allt starfsfólk hefur kost á að sækja. Árið 2019 sóttu 107 starfsmenn námskeiðið Lífeyrismál starfsmanna sem haldið var í bankanum í 8. skipti árið 2019 vegna mikillar eftirspurnar. Því til samanburðar má nefna að sama námskeið var haldið tvisvar árið 2018 fyrir alls 18 þátttakendur.

Gæðavottun fræðslustarfs

Fræðslustarf Landsbankans er EQM-gæðavottað. EQM stendur fyrir European Quality Mark og er vottun fyrir fræðsluaðila utan hins formlega skólakerfis í Evrópu. Landsbankinn er eina fjármálafyrirtækið á Íslandi sem hefur fengið gæðavottun á fræðslustarfi og styður vottunin það markmið að sú fræðsla sem í boði er innan bankans skili sem mestum árangri.

Landsbankinn hefur um árabil boðið öllum sumarstarfsmönnum sem eru að hefja störf hjá bankanum í fyrsta sinn, að sækja fræðsludag sumarstarfsmanna í fræðslusetri bankans í Selvík við Álftavatn.

404-3 Hlutfall starfsfólks sem undirgangast reglulegt frammistöðumat og eiga starfsþróunarsamtal

Framkvæmd frammistöðusamtala í Landsbankanum er alfarið á ábyrgð hvers stjórnanda og er það í samræmi við þá stefnu Landsbankans að gera stjórnendur sjálfstæðari. Frammistöðusamtal er framkvæmt af næsta yfirmanni hvers starfsmanns sem ber jafnframt ábyrgð á framkvæmd þess. Miðað er við að starfsfólk fari í þrjú samtöl yfir árið þar sem farið er yfir mismunandi atriði. Það fer þó eftir stjórnendum og eðli starfa hvort samtölin eru þrjú yfir árið eða eitt yfirgripsmeira samtal árlega. Ekki eru aðgengilegar tölur um fjölda starfsfólks sem fóru í samtal árið 2019.


Fjölbreytileiki og jöfn tækifæri

405-1 Fjölbreytileiki meðal stjórnenda og starfsfólks

Tölfræðin á við um Landsbankann einungis. Í samfélagsskýrslunni fyrir árið 2018 var greint frá því að bankastjóri hefði bæst við tölur framkvæmdastjórnar og nú hefur sú breyting orðið á að framkvæmdastjóri Landsbréfa er ekki lengur inni í tölunum um framkvæmdastjóra. Ástæða þess er að öll önnur tölfræði í samfélagskaflanum tekur eingöngu til starfsmanna Landsbankans nema annað sé tekið fram. Þar sem kaflinn endurspeglar ekki tölfræði samstæðunnar þótti eðlilegt að taka framkvæmdastjóra Landsbréfa út úr tölunum.

Kynjahlutföll stjórnenda og starfsmanna samstæðunnar

 
Karlar
 
Konur
Framkvæmdastjórn
57%
43%
Forstöðumenn
74%
26%
Útibússtjórar
58%
42%
Millistjórnendur
48%
52%
Sérfræðingar með háskólamenntun
56%
44%
Sérfræðingar
37%
63%
Þjónustustjórar
15%
85%
Þjónustufulltrúar og gjaldkerar
8%
92%
Annað starfsfólk
29%
71%

405-2 Samanburður á grunnlaunum og kjörum karla og kvenna

Tölurnar sýna hlutfall launa kvenna af launum karla árið 2019 eftir starfsheitum. Ekki er tekið tillit til áhrifa vegna starfsaldurs, reynslu, menntunar eða annars.

Hlutfall launa kvenna af launum karla

414-1 Hlutfall nýrra birgja sem hafa verið rýndir með tilliti til viðmiða um samfélagsábyrgð, mannauðsmála og mannréttinda

Á 18 mánaða fresti er send út öryggis- og gæðakönnun til helstu birgja bankans. Um er að ræða spurningalista þar sem spurningum er skipt upp í flokka, t.d. varðandi stjórnun, öryggismál og samfélagsmál. Þegar birgi hefur svarað spurningalistanum metur bankinn svörin út frá fyrirframskilgreindu líkani. Ef niðurstaðan er sú að bankinn telur svör birgjans ófullnægjandi, annaðhvort í ákveðnum flokki eða yfir heildina, er haft samband við ábyrgðarmann birgjans og hann upplýstur um niðurstöðuna. Ábyrgðarmaðurinn hefur í framhaldi samband við birgjann, bæði til að leita skýringa og einnig til að koma á framfæri óskum um úrbætur ef þörf er talin á. Í framhaldinu er Rekstraráhætta upplýst um niðurstöður eftirfylgninnar og miðlar þeim áfram til Rekstraráhættunefndar. Sem stendur er ekki gerð krafa um að fyrirtæki svari samfélagsspurningum játandi. Hins vegar telur Landsbankinn að með því að spyrja þeirra spurninga og með því að taka samtal við þá birgja sem ekki standast matið í þeim flokki þá sé bankinn að sýna birgjanum að þetta sé málefni sem hann leggur áherslu á. Verklagið er enn í þróun en það er skilgreint í verklagsreglunni öryggis- og gæðakönnun á birgjum til hvaða birgja matið nær til. Nokkrir birgjar hafa fengið spurningarlistann sendan frá 2016 þegar byrjað var að senda þá út. Árið 2019 var í fyrsta skipti einnig sent á erlenda birgja og því var töluverður fjöldi birgja að fá matið í fyrsta sinn.

Allir nýir birgjar þurfa að svara öryggis- og gæðakönnun Landsbankans áður en viðskiptasambandi er komið á.

Árið 2019 svöruðu 23 birgjar öryggis- og gæðakönnun Landsbankans og var dreifingin á samfélagsspurningunum eftirfarandi:


Nei
Hefur fyrirtækið myndað sér stefnu í umhverfismálum? 57%
43%
Hefur fyrirtækið myndað sér stefnu í samfélagsábyrgð? 48%
52%

417-3 Heildarfjöldi brota gegn reglum og eigin stöðlum um markaðsmál, þ.m.t. auglýsingar, kynningar og styrkveitingar

Eftirlit Umhverfisstofnunar með kynningarvörum leiddi í ljós að endurskinsmerki sem Landsbankinn hafði gefið innihéldu tiltekin hættuleg efni sem háð eru takmörkunum samkvæmt reglugerð nr. 888/2015, um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (REACH), og reglugerð nr. 945/2013, um þrávirk lífræn efni (POP). Landsbankinn brást við niðurstöðunni með því að innkalla endurskinsmerkin með fréttatilkynningu sem send var á fjölmiðla og birt á vefsíðu bankans bæði á íslensku, ensku og pólsku. Í tilkynningunni voru foreldrar og forráðamenn barna sem fengu endurskinsmerki beðin um að hætta notkun þeirra og skila þeim sem plasti í næstu endurvinnslustöð eða í næsta útibú bankans. Umhverfisstofnun sá ekki ástæðu til frekari aðgerða eftir innköllunina og taldi málinu lokið þann 24. maí 2019.


Persónuvernd 

418-1

Undanfarin ár hafa allar kvartanir sem Landsbankanum bárust á árinu verið birtar undir GRI 418-1 vísinum, en samkvæmt skilgreiningu vísisins væri réttara að birta tölfræði yfir:

1. Heildarfjölda kvartana sem fólu í sér staðfest frávik        frá persónuvernd viðskiptavina sem skiptist í:

a. Kvartanir frá utanaðkomandi aðilum, staðfestar af          bankanum.
b. Kvartanir frá yfirvöldum.

2. Heildarfjölda staðfestra gagnaleka, þjófnaðar eða            taps viðskiptaupplýsinga.

Markmið 418-1 er að draga fram hvar viðskiptavinir verða fyrir brotum á persónuvernd eða tapa yfirráðum persónuupplýsinga. Til að gefa sem réttasta mynd af því verður hér eftir greint frá kvörtunum samkvæmt þessum skilgreiningum.

Árið 2019 bárust Landsbankanum 43 kvartanir frá viðskiptavinum varðandi uppflettingu á kennitölu viðkomandi. Allar uppflettingarnar áttu sér viðskiptalegar skýringar utan einnar sem fól í sér frávik frá reglum bankans. Hlaut starfsmaður áminningu í kjölfarið. Þá leituðu tveir viðskiptavinir til Persónuverndar með kvörtun yfir vinnslu persónuupplýsinga þeirra. Landsbankinn bíður þess að Persónuvernd úrskurði í málunum.

Skráðir voru sex öryggisbrestir við meðferð persónuupplýsinga þar sem upplýsingar viðskiptavina bárust óviðkomandi. Persónuvernd var tilkynnt um öll atvikin samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Stofnunin gerði ekki athugasemd við efni þeirra. Þá átti sér hvorki stað gagnaleiki né þjófnaður á upplýsingum um viðskiptavini á árinu.


Markmið

Markmið 418-1 er að draga fram hvar viðskiptavinir verða fyrir brotum á persónuvernd eða tapa yfirráðum persónuupplýsinga.