Velferð til framtíðar

Fara neðar

Ávarp bankastjóra

Landsbankinn leggur áherslu á að samfélagsábyrgð sé samþætt kjarnastarfsemi bankans. Það skiptir máli að huga að samfélagsábyrgð á öllum stigum rekstrarins, í stefnumótun og daglegum ákvörðunum. Samfélagsstefna Landsbankans miðar að því að stuðla að sjálfbærni í íslensku samfélagi, vera hreyfiafl og starfa eftir ábyrgum stjórnarháttum.

Í sjötta sæti af 376 bönkum

Á árinu 2019 fékk Landsbankinn í fyrsta sinn óháðan aðila til að framkvæma UFS-áhættumat á bankanum en fjárfestar hafa í auknum mæli gert kröfur um að fyrirtæki sýni fram á samfélagsábyrgð sína með þeim hætti. Alþjóðlega greiningarfyrirtækið Sustainalytics framkvæmdi áhættumatið og var Landsbankinn í 6. sæti af þeim 376 bönkum sem Sustainalytics hafði mælt í Evrópu. Úttektin er umfangsmikil og tekur til allrar starfsemi bankans og sýnir niðurstaðan að Landsbankinn er á góðri leið með að samþætta samfélagsábyrgð í kjarnastarfsemina. Þetta var ánægjuleg staðfesting á árangri vinnunnar innan bankans og auk þess getur gott UFS-áhættumat veitt bönkum greiðari aðgang að fjármagni.


Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri

Temjum okkur langtímahugsun

Ein áskorun fyrirtækja hvað varðar sjálfbærni og samfélagsábyrgð felst í því að starfa í umhverfi sem einblínir oft um of á ársfjórðungslegan árangur. Þetta er ekki ný áskorun en gagnrýni á skammtímahugsun hefur orðið háværari með vaxandi meðvitund um samfélagslegan ávinning auk góðs rekstrarárangurs. Það er reynslan innan Landsbankans að með því að vinna statt og stöðugt að markmiðum í samfélagsábyrgð verða slík markmið ómeðvitað hluti af allri ákvarðanatöku, hvort sem er til langs eða skamms tíma.

Á haustmánuðum 2019 skrifaði Landsbankinn undir viðmið um ábyrga bankastarfsemi í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Viðmiðin munu hjálpa okkur að innleiða Parísarsamkomulagið og þau þrjú heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem Landsbankinn fylgir í rekstri bankans. Það var ánægjulegt að sjá hversu margir eru tilbúnir til að gangast undir langtímaskuldbindingu í þágu samfélagsábyrgðar, en alls skrifuðu 130 bankar undir viðmiðin við þetta tilefni.

Þátttakendur í verkefninu þurfa að setja sér sértæk, mælanleg og tímasett markmið og birta þau opinberlega. Landsbankinn hefur í kjölfarið sett sér þrjú markmið sem kynnt eru hér í samfélagsskýrslunni. Þau snúa að því að meta losunarumfang lána- og eignasafns bankans, þróa græn útlán og halda áfram að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla þannig að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.


Landsbankinn vinnur að gerð loftslagsmælis

Ein helsta áskorun banka á vettvangi samfélagsábyrgðar er að að mæla umhverfis- og félagsleg áhrif bankastarfsemi í gegnum lána- og eignasöfn sín. Bankar út um allan heim hafa átt í erfiðleikum með að meta þessu óbeinu áhrif á markvissan og hnitmiðaðan hátt. Á árinu 2019 hóf Landsbankinn þátttöku í alþjóðlegu verkefni sem miðar að því að þróa sérstakan loftslagsmæli sem er sérsniðinn að fjármálafyrirtækjum. Honum er ætlað að gera bönkum kleift að mæla kolefnislosun verkefna sem þeir lána fé til eða fjárfesta í.

Sérfræðiþekking á grænum skuldabréfum

Bankinn hefur markvisst byggt upp sérfræðiþekkingu á grænum skuldabréfum og svokallaðri regnbogafjármögnum á undanförnum misserum, þar sem fjármagni er m.a. beint í umhverfisvæn og félagsleg verkefni. Landsbankinn hafði til að mynda umsjón með grænni skuldabréfaútgáfu Lánasjóðs sveitarfélaga sem lauk með vel heppnaðri útgáfu í febrúar 2020. Þá voru í fyrsta skipti hér á landi gefin út græn skuldabréf á betri kjörum en hefðbundin skuldabréf sem gefin voru út á sama tíma og er það til marks um góðan vilja fjárfesta til aðkomu að verkefnum undir formerkjum samfélagsábyrgðar. Afrakstri skuldabréfaútboðsins verður varið til að fjármagna verkefni sveitarfélaga sem stuðla að umhverfisvernd og sporna gegn loftlagsbreytingum.

Leiðandi í samfélagsábyrgð

Landsbankinn gefur árlega út samfélagsskýrslu í samræmi við viðmið Global Reporting Initiative (GRI). Skýrslan fylgir viðmiðum GRI Standards: Meginatriði (Core) og gegnir hún einnig hlutverki framvinduskýrslu til UN Global Compact. Landsbankinn mun áfram styðja við Global Compact og fylgja viðmiðum þess.

Eftir því sem áhuginn og krafan um samfélagsábyrgð fyrirtækja eykst verður mikilvægara að birta aðgengilegar upplýsingar um áhrif starfseminnar á umhverfi og samfélag svo hægt sé að fylgjast með þróuninni, gera samanburð og stuðla að gagnsæi. Í skýrslunni má lesa um þau fjölmörgu verkefni sem bankinn vinnur að í tengslum við samfélagslega ábyrgð, allt frá því að tryggja jafnrétti á vinnustað, til innleiðingar á aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga og til víðtækra samfélagsverkefna sem bankinn tekur þátt í. Samfélagsábyrgð verður æ stærri hluti af rekstri fyrirtækja og vill Landsbankinn halda áfram að vera leiðandi á því sviði.


Ein helsta áskorun banka á vettvangi samfélagsábyrgðar er að mæla umhverfis- og félagsleg áhrif bankastarfsemi í gegnum lána- og eignasöfn sín.