Efnahagur

201-1 Bein fjárhagsleg verðmætasköpun

Bein efnahagsleg verðmæti í milljónum króna* 2018 2019 Breyting
Tekjur 53.910
51.517 -4%
Rekstrarkostnaður** 8.469
8.050 -5%
Laun og launatengd gjöld 14.589
14.458 -1%
Arðgreiðslur til hluthafa 24.821
9.922 -60%
Tekjuskattur og sérstakur skattur 10.713
9.290 -13%
Styrkir til samfélagsins 0.218
0.150 -31%
Samtals efnahagslegt framlag 58.592
41.870 -29%
Efnahagslegur ávinningur -4.682
9.647 306%
Hlutfall efnahagslegs framlags af tekjum 109%
81% -26%

*Upplýsingar á samstæðugrundvelli.

**Án afskrifta fastafjármuna og styrkja.

201-2 Fjárhagsleg áhrif, áhætta og tækifæri af völdum loftslagsbreytinga

Landsbankinn hefur ekki metið áhættu vegna loftslagsbreytinga sérstaklega en telur engu að síður nauðsynlegt að fylgjast náið með þróun þeirra mála, bæði vegna áhrifa á afkomu viðskiptavina og tækifæra í viðskiptum.

Undanfarin ár hefur umræðu um sjálfbærni og samfélagsábyrgð vaxið fiskur um hrygg, bæði erlendis og hér á landi. Viðskiptaumhverfið er að breytast og frammistaða í þessum málum er byrjuð að hafa áhrif á hvernig áhætta í fyrirtækjarekstri og vaxtarmöguleikar fyrirtækja eru metnir. Nýjar rannsóknir sýna jákvætt samhengi á milli áherslu fyrirtækja á sjálfbærni annars vegar og afkomu hins vegar. Þá gera samstarfsaðilar Landsbankans auknar kröfur um að bankinn meti viðskiptavini með hliðsjón af sjálfbærni, bæði með tilliti til lánveitinga og fjárfestinga. Allt bendir til þess að á næstu árum verði enn meiri áhersla lögð á þessi atriði.

Hagfræðideild Landsbankans hóf í lok árs 2016 að safna svörum fyrirtækja, sem skráð eru á Aðallista Kauphallarinnar, við stöðluðum spurningalista sem tekur á helstu þáttum samfélagsábyrgðar, umhverfismálum og jafnrétti kynja. Með þessum spurningalista steig Landsbankinn sín fyrstu skref í þá átt að afla upplýsinga um hvernig fyrirtæki sem skráð eru á markað haga þessum málum og væntanlega framvindu málaflokksins hér á landi.

Spurningalistinn var hafður einfaldur í byrjun með það að leiðarljósi að draga grunnþætti samfélagsábyrgðar fyrirtækjanna fram í dagsljósið og hvetja fyrirtæki til að taka þessi mál til skoðunar. Spurningalistinn og önnur upplýsingaöflun mun svo þróast með tímanum. Flest félög vinna nú þegar að þessum málefnum og því hefur svörun verið mjög góð. Svörin hafa verið gerð aðgengileg fjárfestum á sérstöku svæði á vef Landsbankans. Að svo stöddu eru spurningarnar einungis til upplýsingar fyrir fjárfesta og tekur deildin ekki efnislega afstöðu til svaranna. Spurningalistinn er verkfæri sem fjárfestar geta notað til að meta stefnu fyrirtækja í samfélagslegri ábyrgð. Langtímastefnan er að tekið verði meira tillit til þessara þátta í tengslum við mat á fjárfestingarkostum.

201-3 Skuldbindingar vegna eftirlaunasjóða og annarra eftirlaunakerfa

Auk lögbundinnar skyldutryggingar lífeyrisréttinda greiðir Landsbankinn sem svarar 2% af heildarlaunum starfsmanns í séreignarsjóð fyrstu þrjú starfsár viðkomandi en 7% eftir það. Réttur til þessarar greiðslu lýtur sömu reglum og önnur starfsaldurstengd réttindi vegna starfa í öðru fjármálafyrirtæki. Engar aðrar framtíðarskuldbindingar eru bókfærðar hjá bankanum vegna lífeyrisgreiðslna. Engar framtíðarskuldbindingar eru bókfærðar hjá bankanum vegna hvatakerfa.

201-4 Fjárhagslegur stuðningur frá opinberum aðilum

Ríkissjóður er stærsti eigandi Landsbankans og á 98,2% hlut í bankanum en ekki er litið á hlut ríkisins sem ríkisstyrk.

Markaðsnærvera

202-2 Hlutfall yfirstjórnenda úr nærumhverfi

Landsbankinn skilgreinir Ísland sem nærsamfélag sitt. Allir bankaráðsmenn eru íslenskir og allir þeirra utan einn búsettir á Íslandi. Bankastjóri og framkvæmdastjórar eru íslenskir með búsetu á landinu.


Innkaupahættir

204-1 Hlutfall innkaupa hjá birgjum í nærumhverfi

Landsbankinn skilgreinir Ísland sem nærsamfélag sitt og leitast við að eiga viðskipti við íslenska birgja, að því gefnu að það sé hagkvæmt. Á landsbyggðinni leitast bankinn við að skipta við heimamenn, enda uppfylli þeir skilyrði innkaupastefnu bankans.

Heildarfjöldi birgja Landsbankans sem eru með veltu fyrir 500 þúsund eða meira árið 2019 er 697. Innlendir birgjar eru 606 og þar af eru 46 með samning í yfir eitt ár. Erlendir birgjar eru 91 og þar af eru 53 með samning í yfir eitt ár. Þessir birgjar eru með 100% af heildarinnkaupum bankans en allir stórir birgjar bankans eru samningsbundnir honum.

Heildargreiðslur til birgja árið 2019 námu 6.994 milljónum króna. Innkaup á Íslandi eru skilgreind hér sem innkaup í íslenskum krónum og voru þá 89% af öllum innkaupum bankans á árinu. Þessar upplýsingar eru á samstæðugrundvelli.

Stærstur hluti erlendra innkaupa bankans tengist upplýsingatækni og er skipting meginútgjaldaflokka eftirfarandi:

Hlutfall innkaupa frá innlendum og erlendum birgjum

 

Hlutfall birgja eftir flokkum Hlutfall af heild  Innlendir Erlendir
Upplýsingatækni 38% 78% 22%
Rekstur fasteigna 14% 100% 0%
Markaðskostnaður 12% 100% 0%
Annað 36% 93% 7%

Ráðstafanir gegn spillingu

205-1 Starfsemi sem hefur verið metin m.t.t. áhættu samfara spillingu

Landsbankinn hefur sett sér stefnu gegn mútum og spillingu. Stefnan kveður á um viðeigandi skipulagslegar og stjórnunarlegar ráðstafanir bankans til að draga úr hættu á mútum og spillingu í starfsemi bankans og í samskiptum við viðskiptavini, starfsmenn, eftirlitsaðila og önnur stjórnvöld, hluthafa, endurskoðendur, samkeppnisaðila og aðra sem eiga hagsmuna að gæta.

Stefnan tekur mið af samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu sem tók gildi gagnvart Íslandi í mars 2011, 264. gr. a í almennum hegningarlögum nr. 19/1940, starfsreglum Landsbankans og siðasáttmála Landsbankans.

Regluvarsla framkvæmdi áhættumat á sviksemi og aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á helstu starfssviðum bankans á árinu 2019.

205-2 Upplýsingagjöf og þjálfun um ráðstafanir gegn spillingu og ferli

Starfsmenn sem hefja störf fyrir Landsbankann fá sérstaka fræðslu þar sem farið er yfir helstu starfsreglur bankans, þ.m.t. reglur um hagsmunaárekstra, tilkynningar um misferli og aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Bankaráð og bankastjóri fá sérstaka fræðslu við upphaf starfs sem lið í undirbúningi fyrir mat á hæfi þeirra sem framkvæmt er af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Þá fara framkvæmdastjórar í sambærilegt hæfismat sem framkvæmt er af Regluvörslu. Stefna Landsbankans gegn mútum og spillingu tekur á ábyrgð stjórnenda hvað varðar viðeigandi fræðslu en með fræðslu skal stefnt að aukinni vitund meðal starfsfólks um ráðstafanir gegn mútum og spillingu og hvernig starfsfólk skuli bregðast við þegar grunur vaknar um mútur og spillingu.

205-3 Staðfest tilvik um spillingu og mótaðgerðir

Landsbankinn hefur sett sér stefnur sem eiga að styðja við aðgerðir bankans gegn mútum og spillingu, þ. á m. stefnu um hagsmunaárekstra, stefnu um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og stefnu um hlítingaráhættu. Í stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra er gerð grein fyrir helstu ráðstöfunum bankans til að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar skaði hagsmuni viðskiptavina. Sömuleiðis greinir stefnan mögulega hagsmunaárekstra sem upp geta komið milli viðskiptavina, milli viðskiptavina og bankans og innan bankans.

Landsbankinn hefur einnig sett ýmsar sérreglur til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, þ. á m. reglur um aðskilnað starfssviða og aðgang að húsnæði, reglur um verðbréfaviðskipti starfsmanna, auk almennra starfsreglna sem taka á atvinnuþátttöku og stjórnarsetu starfsmanna og móttöku gjafa og boðsferða.

Í bankanum er til staðar verkferli og vinnulýsing vegna misferlis starfsmanna. Regluvarsla fær tilkynningar um misferli starfsmanna og tekur á þeim málum í samvinnu við Innri endurskoðun.

Landsbankinn hefur einnig innleitt reglur um vernd og stuðning við þá sem ljóstra upp um misferli innan bankans (e. whistle blowing) sem er reglulega kynnt fyrir starfsfólki bankans.

Reglur Landsbankans um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka mæla fyrir um helstu ráðstafanir bankans til að sporna gegn slíku, t.d. með framkvæmd áreiðanleikakönnunar á viðskiptavinum, viðvarandi eftirlit, tilkynningarskyldu vegna gruns um peningaþvætti, innri ferla, eftirlit og fræðslu fyrir þær starfseiningar bankans þar sem hætta getur verið á peningaþvætti, hagsmunaárekstrum og sviksemi.

Starfsmenn fá reglulega fræðslu um aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.


1 Ekki er tekið tillit til reksturs fullnustueigna.