Útgáfa

Á Umræðunni birtist fjölbreytt efni um efnahagsmál og fjármál í víðum skilningi. Útgáfan hefur skýra vísun í hlutverk Landsbankans sem hreyfiafls í samfélaginu. Umfjöllunarefni á árinu 2019 voru meðal annars staðan í ferðaþjónustu, breytingar í fjármálaþjónustu, ungt fólk og fjármál, græn fjármögnun og netöryggismál. Hlaðvarp Hagfræðideildar bættist við viðamikla útgáfuflóru Landsbankans.

Áhugaverð umfjöllun á Umræðunni

Umræðan hefur vaxið að umfangi ár hvert allt frá því að hún fór fyrst í loftið árið 2016. Efnið er sett fram á aðgengilegan hátt og fjallað er um það sem efst er á baugi í fjármálaheiminum og málefni tengd breytingum í samfélaginu. Við framsetningu efnis er notast við texta, ljósmyndir, tölulegt efni, fræðandi yfirlits- og kynningarmyndbönd og í hlaðvarpinu eru ýmis mál tekin fyrir.

Á árinu 2019 voru umfjöllunarefni Umræðunnar afar fjölbreytt að vanda. Fjallað var um þróun mála í banka- og fjármálageiranum og m.a. birt grein undir heitinu Hvert stefnir bankaheimurinn? sem fjallar um breytingar í fjármálaþjónustu samfara opnu bankakerfi. Einnig var fjallað um PSD2 í Evrópugóðar viðtökur við fyrstu A2A-greiðslulausninni og Apple Pay. Einnig var fjallað um hvernig fjármál hafa í síauknum mæli færst yfir í snjallsíma fólks.

Málefni tengd samfélagsábyrgð voru áberandi. Því tengdu var birt grein um græna fjármögnun sveitarfélaga, fjallað um hvernig fyrirtæki eru metin út frá samfélagsábyrgð og heimsmarkmiðin sem hluta af samfélagsstefnu Landsbankans. Netöryggismálin voru ofarlega á baugi líkt og undanfarin ár en bankinn hefur lagt mikla áherslu á að upplýsa viðskiptavini og aðra um þennan málaflokk. Fjallað var um sæmdarkúgun, sem er ein tegund fjárkúgunar, og einnig ókeypis lausnir til að gera tölvupóstsendingar öruggari. Útsmoginn sálfræðihernaður í netsvikum var einnig til umræðu, sem og fjárfestasvik, sem hafa aukist mjög á árinu.

Farið var yfir góð ráð í tengslum við stofnun og rekstur styrktarsjóða og fjallað um hvernig breytingar á verslun fela í sér tækifæri og áskoranir fyrir íslenskan sjávarútveg. Sum umfjöllunarefnin á Umræðunni tengjast samfélagslegum málefnum og samstarfsaðilum bankans. Þar á meðal má nefna grein um Iceland Airwaves þar sem litið var um öxl og skoðuð þrjátíu myndbönd sem Landsbankinn hefur framleitt með ungu tónlistarfólki í samstarfi við tónlistarhátíðina. Birt var grein í tengslum við Hinsegin daga þar sem rætt var um Gleðigönguna sem ómissandi fjölskylduhátíð og fjallað um háttvísiverðlaun Landsbankans og KSÍ fyrir yngri flokka í fótbolta. Auk þess var til umfjöllunar að Pólverjum á Íslandi finnst gott að fá bankaþjónustu á móðurmálinu. Fjallað var um hvernig ný tækni hefur áhrif á líf fatlaðra og aðgengismál en við þróun Lansbankaappsins var tekið tillit til aðgengismála allt frá upphafi.

Ítarleg umfjöllun var um ungt fólk og fjármál þar sem rætt var við nokkur ungmenni um sparnað og fengin ráðgjöf frá sérfræðingi Landsbankans. Einnig var fjallað um ungt fólk og íbúðamarkaðinn með svipuðum hætti.

Íslensku vefverðlaunin


  • Umræðan hefur verið valin besta efnis- og fréttaveitan á Íslensku vefverðlaununum

Fimm efnissvið

  • Samfélagið - Áhugaverðar greinar og viðtöl um nýjungar og breytingar sem eiga sér stað í samfélaginu, í fjármálaheiminum og í starfsemi Landsbankans.
  • Efnahagsmál - Greinar og rannsóknir um efnahagsmál frá Hagfræðideild Landsbankans.
  • Ráðstefnur - Fjölbreytt efni frá ráðstefnum og fundum bankans.
  • Fjárhagur - Styttri fræðslugreinar þar sem starfsfólk Landsbankans miðlar af þekkingu sinni og reynslu um málefni er snerta fjármál heimilisins og efnahagsmál.
  • Hlaðvarp - Hlaðvarp Umræðunnar fór fyrst í loftið 2018 í samvinnu við Stúdentaráð HÍ. Rætt var um húsnæðismál stúdenta, fyrstu kaup og fleira. Hlaðvarp Hagfræðideildar, Markaðsumræðan, bættist í sarpinn árið 2019.

Sett voru upp umfangsmikil vefsvæði á Umræðunni í tilefni af stærri útgáfum Hagfræðideildar líkt og gert hefur verið undanfarin ár. Ítarleg umfjöllun um ferðaþjónustu var birt í september og Hagspá deildarinnar var birt í október. Á vefsvæðunum er notast við gagnvirk gröf, myndbönd, ljósmyndir og viðtöl við hagsmunaaðila í atvinnulífinu sem styðja með áhugaverðum hætti við texta greininganna. Upptökur og glærur frá ráðstefnum sem haldnar eru í tilefni af útgáfunum eru birtar á sérstökum vefsíðum.

Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans birtist á Umræðunni en það eru reglulegir pistlar um stöðu efnahagsmála, ríkisfjármála, um fasteignamarkaðinn, verðbólguhorfur og fleira. Í Vikubyrjun birtast upplýsingar um stöðuna á mörkuðum, vikan sem leið er gerð upp og sagt er frá því sem framundan er á sviði efnahagsmála, birtingu á hagtölum, uppgjörum o.s.frv.

Umsjónarmenn Markaðsumræðunnar eru Arnar I. Jónsson og Sveinn Þórarinsson.

Markaðsumræðan, hlaðvarp Hagfræðideildar

Markaðsumræðan er nýtt hlaðvarp á Umræðunni þar sem verðbréfagreinendur í Hagfræðideild Landsbankans koma á framfæri skoðunum sínum og greiningum á félögum á hlutabréfamarkaði og fjalla um áhrif nýjustu vendinga á mörkuðum og í hagkerfinu á félögin. Umfjöllunin er á mannamáli með það að markmiði að auka áhuga og umræðu um hlutabréfamarkaði.

Fyrsti hlaðvarpsþáttur Markaðsumræðunnar fór í loftið í október. Megin áhersla umfjöllunarinnar er á verðbréf og þróun markaðarins á Íslandi en einnig er fjallað um hagfræði og hagkerfið með víðari skírskotun til þátta á borð við ferðaþjónustu og fleira. Alls fóru fimm þættir í loftið í haust og var m.a. fjallað um smásölu og stýrivexti, þjóðhagsspá og fasteignamarkaðinn, stöðu og horfur hjá Icelandair, baráttuna gegn peningaþvætti, hlutdeildarlán og kaup TM á Lykli.

Hlaðvarp Umræðunnar

  • Í nýju hlaðvarpi Umræðunnar, Markaðsumræðunni, fjalla sérfræðingar í Hagfræðideild Landsbankans um hlutabréfamarkaðinn, viðskiptalíf og efnahagsmál.

Nánar um Markaðsumræðuna
Hjá Hagfræðideild Landsbankans á sér stað öflug rannsókn og greining á þróun efnahagsmála. Deildin gegnir lykilhlutverki við að móta sýn bankans á þróun og horfur í efnahagslífinu, innanlands og utan. Hagfræðideildin gefur út þjóðhags- og verðbólguspár, sinnir atvinnuvegagreiningum og öðrum sérhæfðari verkefnum. Einnig annast hún greiningu og verðmat á skráðum félögum á markaði.

Hagfræðideild gaf út 353 greiningar árið 2019

Alls sendi Hagfræðideild frá sér 353 greiningar árið 2019 og stóð að fjölda viðburða og kynningarfunda tengdum efnahagsmálum. Deildin gerði ítarlega úttekt á stöðu og horfum á íslenskri ferðaþjónustu sem kynnt var á fjölmennri ráðstefnu í Hörpu í október. Hagspá Hagfræðideildar var sömuleiðis kynnt á fjölmennum morgunfundi í Hörpu í nóvember og var Þjóðhagur, ársrit deildarinnar, gefið út á Umræðunni. Um er að ræða ítarlegar greinar um ólíka þætti efnahagslífsins á Íslandi og í heiminum öllum. Yfirskrift fundarins var: „Hagkerfið kemur inn til mjúkrar lendingar“. Auk þess var sérstaklega fjallað um stöðuna á húsnæðismarkaði og Jamie Rush, aðalhagfræðingur Evrópudeildar Bloomberg Economics í London, ræddi um efnahagsleg áhrif popúlisma.

Sérfræðingar Hagfræðideildar voru áberandi í fjölmiðlum á árinu, enda reglulega leitað til þeirra með spurningar um efnahagsmál og vitnað í þá og greiningar þeirra í fjölmiðlum.


Útgáfur Hagfræðideildar 2019
Þjóðhagsgreiningar, skuldabréf og gjaldeyrismarkaður
Þjóðhagur og sérrit 2
Hagsjá 150
Vikubyrjun 49
Mánaðaryfirlit yfir gjaldeyrismarkað 12
Mánaðaryfirlit sértryggðra skuldabréfa 12
   225
   
Hlutabréfamarkaður
Afkomuspár 60
Viðbrögð við afkomu 38
Verðmat fyrirtækja 13
Mánaðaryfirlit hlutabréfa 11
Sérrit 1
Hlaðvarp 5
   128