Jafnrétti

Landsbankinn hefur um árabil lagt áherslu á launajafnrétti og jöfn starfstækifæri. Á árinu 2019 voru þessi málefni efld enn frekar með Jafnréttisvísi Capacent og lögbundin jafnlaunavottun tók gildi.

Jafnlaunavottun tekur gildi

Lögbundin jafnlaunavottun Landsbankans tók formlega gildi í mars 2019 og hefur bankinn unnið samkvæmt vottuðu jafnlaunakerfi síðan. Reglulega er reiknaður launamunur innan bankans og á árinu 2019 hefur hann verið á bilinu 1,4-1,8%, þar sem karlar eru hærri en konur. Aðhvarfsgreining desemberlauna 2019 leiðir í ljós að launamunur kynjanna er 1,5%.

Samkvæmt lögum um jafnlaunavottun frá 2017 skal vottunin byggjast á jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Með innleiðingu jafnlaunastaðals hefur Landsbankinn komið sér upp stjórnkerfi sem miðar að því að tryggja að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.


Áhersla á heimsmarkið 5 um jafnrétti kynjanna

Landsbankinn fylgir markvisst þremur heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, þar með talið heimsmarkmiði 5 um jafnrétti kynjanna. Áður en bankinn hlaut lögbundna jafnlaunavottun hafði hann í tvígang hlotið gullmerki jafnlaunaúttektar PwC, upphaflega árið 2015 fyrstur banka. Landsbankinn vill tryggja að karlar og konur hljóti jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf og hefur það að markmiði að hlutur hvors kyns í framkvæmdastjórn bankans verði aldrei minni en 40%.

Jafnréttisstefna Landsbankans er endurskoðuð reglulega og Jafnréttisnefnd er starfrækt innan bankans. Landsbankinn hefur skrifað undir Jafnréttissáttmálann (Women's Empowerment Principles – Equality Means Business), alþjóðlegt átak UN Women og UN Global Compact. Með undirskriftinni skuldbindur Landsbankinn sig til að vinna að bættum jafnréttismálum innan fyrirtækisins og sýna samfélagslega ábyrgð.

Ráðstefna um jafnréttismál á vinnustöðum

Í nóvember 2019 stóð Landsbankinn að ráðstefnu um jafnréttismál á vinnustöðum ásamt Landsvirkjun og Alcoa Fjarðaáli. Ráðstefnan var haldin á Egilsstöðum og var vel sótt. Rætt var um mikilvægi þess að leggja áherslu á jafnréttismál í atvinnulífinu. Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, var með erindi og tók þátt í pallborðsumræðum.

Jafnréttismálin efld með Jafnréttisvísi Capacent

Landsbankinn er aðili að Jafnréttisvísi Capacent sem er viðamikið verkefni þar sem staða jafnréttismála innan bankans var metin með ítarlegri greiningu. Allt starfsfólk bankans kom að verkefninu en það hófst árið 2018. Við innleiðingu Jafnréttisvísanna voru sett markmið í 6 flokkum til ársins 2022.

Á árinu 2019 var margt gert til að ná þessum markmiðum. Starfsþróunar- og mentorakerfi var komið á fót til styrkja starfsfólk í eigin starfsþróun. Markvisst var skráð hverjir komu fram fyrir hönd bankans í fjölmiðlum og ráðstefnum. Það reyndist gott aðhald og í lok árs var kynjaskiptingin jöfn. Á árinu var innleidd viðbragðsáætlun við einelti, kynbundnu misrétti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi (EKKO) og hún kynnt starfsfólki. Við ráðningu starfsfólks hefur verið haldið utan um kynjahlutfall umsækjenda og viðtalsboðun skráð, auk upplýsinga um endanlega ráðningu Enn fremur er unnið að því að upplýsa stjórnendur um ómeðvitaða fordóma og leiðir til þess að draga úr áhrifum þeirra.


Markmið til ársins 2022 unnin með Jafnréttisvísi Capacent

  • Starfsþróunar- og mentorakerfi, að koma á fót úrræðum fyrir starfsfólk til að styrkja eigin starfsþróun.
  • Fyrirmyndir, kynjaskipting þeirra sem koma fram fyrir hönd bankans.
  • Menning. Að ferlar varðandi EKKO verði skýrir og trúverðugir og starfsfólk fái reglulega fræðslu um EKKO.
  • Fræðsla. Viðburðir um jafnréttismál og fræðsluátak meðal starfsfólks.
  • Ráðningarferli, að vinna að því að útrýma ómeðvituðum fordómum úr ferlinu.
  • Jöfn staða kynja, að ná 40/60 kynjahlutfalli í öllum stjórnunarlögum.

Megináherslur í jafnréttismálum eru:

  • Landsbankinn er vinnustaður þar sem karlar og konur eiga jafna möguleika til starfa og stjórnarsetu.
  • Landsbankinn stefnir að jöfnu hlutfalli kynja meðal starfsmanna og að ákveðin störf flokkist ekki sem sérstök karla- eða kvennastörf.
  • Landsbankinn greiðir konum og körlum jöfn laun og sömu kjör fyrir jafnverðmæt störf.
  • Landsbankinn er vinnustaður þar sem starfsfólk getur samræmt vinnu og einkalíf.
  • Landsbankinn líður ekki einelti, fordóma, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni né kynbundið ofbeldi.
  • Landsbankinn gætir þess að starfsfólk hafi sömu tækifæri til starfsþróunar, náms og fræðslu.
Kynjahlutfall í Landsbankanum - heild

Ábyrgar fjárfestingar

Í Landsbankanum hefur undanfarin ár markvisst verið unnið að innleiðingu á stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Áhersla er lögð á innleiðingu samfélagsábyrgðar í kjarnastarfsemi bankans.

Stefna Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar tekur bæði mið af því vinnulagi sem hefur mótast undanfarin ár og einnig þeim áskorunum sem framundan eru. Næsta skref bankans í þessum efnum verður að bæta umhverfis og félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS-þáttum, e. ESG) með skipulögðum hætti inn í ferli fjárfestingarákvarðana, hvort sem um óskráð eða skráð félög eða skuldabréf er að ræða.

Stefnan um ábyrgar fjárfestingar er sett með hliðsjón af reglum United Nations Principles for Responsible Investment (UN PRI) en bankinn fékk aðild að UN PRI í byrjun árs 2013. Þau fyrirtæki sem gangast undir reglur UN PRI skuldbinda sig til að veita upplýsingar um hvernig tekið er tillit til viðmiða reglnanna í framvinduskýrslu og skilar bankinn slíkri skýrslu til samtakanna árlega. Samtökin gera kröfu um skýra framvindu aðildarfélaganna. Skýrslan er ætluð fjárfestum, viðskiptavinum og hagsmunaaðilum og er aðgengileg á vefsvæðum PRI og Landsbankans.

Samþætting umhverfismála, félagslegra þátta og góðra stjórnarhátta við mat á fjárfestingarkostum hafa jákvæð áhrif á ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma og draga úr rekstaráhættu. Viðskiptaumhverfið er að breytast og frammistaða í sjálfbærni og samfélagsábyrgð er farin að hafa áhrif á hvernig áhætta í fyrirtækjarekstri er metin, sem og vaxtarmöguleika fyrirtækja.

Landsbankinn vill, með samræðum um samfélagsábyrgð við fyrirtæki, leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir til að hagur bankans og fjárfesta verði betur tryggður til framtíðar. Starfshættir Landsbankans varðandi ábyrgar fjárfestingar byggja á virkum samræðum þar sem neikvæðri skimun (útilokun) er beitt í undantekningartilvikum.


  • Alþjóðlega eignastýringarfyrirtækið LGT Capital Partners, samstarfsaðili Landsbankans, er leiðandi í ábyrgum fjárfestingum á alþjóðavísu.

Fyrirtæki metin út frá samfélagsábyrgð

Sérþekking á grænum skuldabréfum

Á undanförnum misserum hefur bankinn marvisst byggt upp sérfræðiþekkingu á grænum skuldabréfum. Græn skuldabréf eru einn möguleiki til fjármögnunar á umhverfisvænum verkefnum og hefur áhugi á grænum skuldabréfum aukist jafnt og þétt á undanförnum árum hér á landi samfara stórauknum áhuga erlendis. Vitundarvakning í loftslags- og umhverfismálum og þrýstingur frá almenningi hafa leitt til þess að ríki, sveitarfélög og einkarekin félög láta sig þessi málefni varða í auknum mæli. Landsbankinn hefur leitast við að byggja upp þekkingu á svokallaðri regnbogafjármögnun sem er samheiti yfir græn skuldabréf, rauð skuldabréf (sem gefin eru út til að fjármagna félagsleg verkefni) og blá skuldabréf (sem er beint að verndun sjávar).

Á árinu 2019 unnu Markaðir Landsbankans með Lánasjóði sveitarfélaga að vottun vegna útgáfu grænna skuldabréfa. Tilgangur fyrirhugaðrar skuldabréfaútgáfu er að fjármagna verkefni sveitarfélaga sem stuðla að umhverfisvernd og sporna gegn loftslagsbreytingum. Umgjörðin var vottuð af Sustainalytics, leiðandi vottunaraðila á heimsvísu.

Í júlí 2019 skrifuðu Reitun ehf., Landsbankinn og Landsbréf undir þjónustusamning um kaup Landsbankans og Landsbréfa á framkvæmd UFS mats (e. ESG rating) á útgefendum hlutabréfa og skuldabréfa í stýringu félaganna. Markmiðið með samningnum er að færa innleiðingu á starfsháttum ábyrgra fjárfestinga á næsta stig og halda þannig áfram þeirri vegferð sem bankinn og dótturfélag hans, Landsbréf, hafa markað sér undanfarin ár.


  • Lánasjóður sveitarfélaga hefur fengið vottun á umgjörð félagsins til að gefa út græn skuldabréf.

Græn fjármögnun sveitarfélaga

Viðbótarviðmið við greiningu fjárfestinga

Hagfræðideild Landsbankans hefur undanfarin misseri aflað upplýsinga á skipulagðan máta um starfsemi skráðra fyrirtækja með hliðsjón af sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Um er að ræða staðlaðan, einfaldan spurningalista sem tekur á helstu þáttum samfélagsábyrgðar, umhverfismálum og jafnrétti. Með þessum spurningalista steig Landsbankinn sín fyrstu skref við að afla upplýsinga um hvernig fyrirtæki sem skráð eru á markað haga þessum málum en svörin voru gerð aðgengileg fjárfestum á heimasíðu Hagfræðideildar Landsbankans árið 2017. Að svo stöddu eru spurningarnar einungis til upplýsinga fyrir fjárfesta og tekur deildin ekki efnislega afstöðu til svaranna. Langtímastefnan er að tekið verði meira tillit til þessara þátta í tengslum við mat á fjárfestingarkostum. Markmiðið er að samfélagsábyrgð verði hluti af almennum greiningum í framtíðinni, í samræmi við skuldbindingar bankans um ábyrgar fjárfestingar.